Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:54:42 (4469)

2001-02-12 17:54:42# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að átta mig betur á hugtökunum. Hv. þm. talar um einkavæðingu þar sem ég tala frekar um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag í ríkiseign. Ef hann á við einkavæðingu, að ég sé að tala um að selja eigi Ríkisútvarpið, þá er ekki svo. Ég hef aldrei verið málsvari þess. Hann segir að markaðshyggjumenn og fjármálamenn séu aðaltalsmenn þessa. Þeir sem hafa lýst slíkum sjónarmiðum fyrir mér af hvað mestum þunga eru stjórnendur Ríkisútvarpsins, þeir sem bera ábyrgð á daglegum rekstri Ríkisútvarpsins. Þeir hafa hvað helst vakið máls á því við mig að nauðsynlegt sé að skapa Ríkisútvarpinu nýjar forsendur að þessu leyti. Þeir eru ekki talsmenn þess að Ríkisútvarpið verði selt heldur vilja þeir geta rekið þessa stofnun þannig að hún sé sem best í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem við henni blasa, þar með að rekstrarfyrirkomulagið geri þeim kleift að sinna þessu.

Að draga upp þá mynd að með þessu sé menntmrh., af því að hann hafi eitt spil á hendinni, trompið á hendinni og hlutabréfið í vasanum, að seilast til gjörræðisvalds yfir stofnuninni er náttúrlega alveg út í bláinn. Það er eins og málflutningur vinstri grænna jafnan verður og við urðum vitni að hér áðan hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ég veit ekki hvað oft þarf að rekja þann málflutning til enda þar sem menn telja að með þessu sé seilst eftir alræðisvaldi eða skipunarvaldi sem ekki ber að hafa. Það er ekki svo. Þetta spurning um efnislegt atriði sem menn verða að geta rætt án þess að fara í þau spor að ráðherrar séu að reyna að sölsa undir sig eitthvert alræðisvald. Hvaða ráðherra dytti það í hug að hann ætti að hafa alræðisvald yfir Ríkisútvarpinu?