Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:23:52 (4648)

2001-02-15 11:23:52# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:23]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þau ágætu sjónarmið sem hér hafa komið fram í orðaskiptum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og annarra sem hér hafa fjallað um starfsmann fyrir Alþingi til að gera slíka vinnu betri og faglegri.

Ég kvaddi mér hljóðs vegna orða hæstv. ráðherra þar sem hann nefndi að samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið væru aðilar að fagsamböndum Evrópu. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um það og geri mér alveg grein fyrir því að þar er mótuð stefna sem nær oft og tíðum inn í ákvarðanir sem síðan berast hingað gegnum Evrópska efnahagssvæðið, en auðvitað munum við í utanrmn. ræða við þetta fólk og heyra sjónarmið þess um það sem þarna kemur fram í greinargerð.

Ástæða þess að ég ákvað að koma upp í tilefni þessara orða og þess að hæstv. ráðherra nefndi hversu mikil áhrif slík fagsambönd hefðu er að minnast þess að mér finnst að okkur hafi ekki tekist nægilega að koma því á framfæri á sínum tíma þegar samningur um Evrópska efnahagssvæðið var til umræðu í heitum umræðum á Alþingi og utan Alþingis, hversu gífurleg félagsleg réttindi fólust í þessum samningi. Það er ánægjulegt að stéttarfélögin eins og t.d. Iðja hafa tekið þessi réttindi saman. Mörg þeirra hafa komið inn í lagabúningi. Það nýjasta sem ég man eftir eru lög um foreldraorlof sem áttu upptök sín hjá þessum fagsamböndum, komu inn í gegnum Evrópska efnahagssamninginn og hingað inn á Alþingi sem frv. sem varð að lögum. Þannig hefur þetta oft gerst, herra forseti, og full ástæða er til þess að ég, sem var ein af baráttumanneskjum fyrir þessum samningi, rifji það upp þegar tilefni gefst til eins og núna.