Stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 18:50:27 (4800)

2001-02-19 18:50:27# 126. lþ. 72.13 fundur 262. mál: #A stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri# þál., ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem hér hefur verið lögð fram um stofnun og rekstur tónminjasafns á Stokkseyri. Ég tel að um mjög tímabæra og merka þáltill. sé að ræða og finnum við það sem höfum hreyft þessum málum á hinu háa Alþingi að þessi þáttur í söfnun og varðveislu og umhyggju fyrir munum hefur einmitt dregist mjög aftur úr þegar áherslan hefur fyrst og fremst verið á byggðasöfnum, þjóðminjasöfnum og Þjóðminjasafni og öðru slíku. Tónlistin er vettvangur sem á svo sannarlega að fá hærri og betri sess en hingað til hefur verið.

Það er líka í samræmi við þá miklu og góðu bylgju sem við finnum alls staðar í samfélaginu og felst í öllum þeim fjölda fólks sem sækir tónleika, er í tónlistarskólum og þeim árangri sem Íslendingar hafa náð á sviði tónlistar. Það er því ekki vonum fyrr að þessi tillaga er lögð fram og hún á að mínu mati að fá góðar undirtektir hjá þinginu.

Hér hafa verið nefndir nokkrir þættir sem styðja þáltill., svo sem ferðaþjónusta o.fl. Undir allt þetta ætla ég að taka en gera ekki að umræðuefni því ég fæ annað tækifæri til slíks síðar í dag eða næst þegar önnur þáltill. verður tekin til umræðu. En það er einn þáttur sem hv. þingmenn hafa ekki nefnt og ég vil draga fram en það er að safn af þessu tagi á að mínu mati að vera lifandi safn, lifandi að því leyti að það á að laða fólk að safni sem þessu og halda tónleika. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gera það í einhverjum stórum stíl því að slíkt krefst tónlistarsalar eða aðstæðna sem eru tiltölulega dýrar en vissulega mætti vera með tónlist og tónleika fyrir kvartetta og kammertónlist ásamt söng og öðru sem kemst fyrir með góðu móti við tiltölulega þröngar aðstæður.

Þá vil ég einnig nefna þann möguleika að á Stokkseyri, þar sem þetta safn væri sett upp, mætti líka búa tónskáldum samastað, að þeir gætu komið þar og dvalið við einmitt þær aðstæður sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir dró svo ágætlega fram hér og með lifandi hætti. Þarna gætu þeir haft aðstöðu og búið um tíma.

Ég ætla ekki að fjölyrða um tillöguna en ætla þó við þetta tækifæri að geta þess að fyrir þinginu liggur önnur þáltill. sem er lögð fram af þeim þingmanni sem hér stendur og hér talar en það er þáltill. um að stofnað verði tónminjasafn. Þá þáltill. lagði ég fram á síðasta þingi en mælti ekki fyrir henni vegna anna í þinginu og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, sem leggur fram tillögu um tónminjasafn á Stokkseyri, vissi ekki af tillögu minni en það fer vel á að við þingmennirnir og vinir og félagar leggjum fram tillögu á þessu sviði. Ég tel að við getum fyllilega náð góðu samstarfi, annaðhvort með því að taka undir tillögu sem Drífa Sigfúsdóttir lagði fram að safnið á Stokkseyri væri bundið sérstaklega við Stokkseyri og Eyrarbakka og þær sögulegu rætur sem hafa verið dregnar fram í ágætum ræðum, eða þá hitt að við sameinuðum beinlínis tillögur okkar og tónminjasafn, víðtækt og öflugt á landsvísu, yrði sett niður á Stokkseyri og styddi þar með það héraðssafn sem verið er að tala um. Allt finnst mér þetta koma til greina, aðalatriðið er að þetta nái fram að ganga og verði tónlistinni til framdráttar og efli menningu og glæði sögu okkar lífi.

Ég mun við flutning á þáltill. minni ræða frekar um gildi safna sem ég hef ekki gert hér eins og ég hefði ella viljað.