Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:02:46 (4810)

2001-02-20 14:02:46# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það að 1. flm. þessa frv. skyldi ekki fjalla nánar um hvað átt sé við sérstaklega með 1. málsl. 1. gr. sem orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Á vegum Alþingis starfar lagaráð sem hefur það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála.``

Síðar í greininni er talað um að lagaráð eigi að vera til ráðgjafar um undirbúning löggjafar og um það hvort á frumvörpum séu lagatæknilegir ágallar. Ég hafði satt að segja vænst þess að hv. flm., líka vegna þeirra aðfinninga sem hún var með í minn garð, mundi reyna að skýra nánar hvað fyrir henni vekti sem hún ekki gerir. Ég hygg að þessi setning sé dæmigerð um það sem yrði vísað til lagaráðs þar sem texti væri óljós og óræður og þyrfti þess vegna að spyrja löggjafann hvað þetta þýddi ef að lögum yrði, það sé með öðrum orðum gott dæmi um lausatök í löggjafarstarfi ef þessi lagagrein yrði samþykkt eins og hún er hér orðuð.