Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 14:28:56 (4815)

2001-02-20 14:28:56# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hafði orð á því að hann þekkti engin dæmi þess hjá öðrum þjóðþingum að ekki væri a.m.k. lagaskrifstofa eða deild og við værum greinilega á eftir, værum farin að skera okkur úr eins og hv. þm. komst að orði. Ég veit að við erum báðir sammála um að á þeim tíma sem liðinn er síðan við settumst á Alþingi hefur aðstaða þingmanna til að vinna hér að löggjafarstörfum stórbatnað og ég vil segja að sú aðstaða fari batnandi ár frá ári. Ef við horfum fram á veginn er ljóst að eftir því sem okkur tekst að bæta vinnuskilyrði og auka við húsnæði Alþingis getum við að sjálfsögðu lagt meira í aðstoð við þingmenn og ég tek undir með hv. þm. að það er æskilegt.

Ég vil samt láta það koma fram af minni reynslu að ég þekki ekkert dæmi þess að þingmenn hafi ekki fengið þá lögfræðilegu aðstoð sem þeir hafa beðið um. Ef þingmenn hafa leitað eftir því að fá álitsgerð frá Lagastofnun Háskóla Íslands veit ég ekki annað en við því hafi verið orðið. Ástæða er til í þessu samhengi að minna á, að á fundi með þingflokksformönnum á sl. vori vakti ég sérstaka athygli á því að óþarfi væri afgreiða öll lagafrv. þá þegar. Það væri ágætt að senda sum þeirra til umsagnar og taka þau síðan fyrir að nýju á hausti komanda. Því er það auðvitað að nokkru undir hv. þm. sjálfum komið hversu mikið og mjög þeir vanda störf sín.