Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:17:45 (4890)

2001-02-20 19:17:45# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:17]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að við eigum að skoða þennan kost enn frekar því að við erum öll sammála um að við viljum vanda og styrkja betur lagasetninguna. En ég tel að við eigum að skoða þann kost að efla enn frekar nefndasviðið hvort sem það heitir lagaskrifstofa eða eitthvað annað því að þá erum við líka með embættismenn sem heyra undir þingið, sem eru beint á vegum þingsins. Og af orðum hv. þm. stjórnarandstöðunnar held ég að það væri einmitt leiðin til þess að styrkja enn frekar löggjafarstarfið sem slíkt.

Ég tel það afar mikilvægt ef við mundum fjölga slíkum starfsmönnum til þess að styrkja einmitt þetta löggjafarstarf því þá eru þeir undir stjórn þingsins og hvað er stjórn þingsins annað en stjórnendur í umboði fólksins? Það er eitt besta lýðræðið.