Orkukostnaður

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 13:52:17 (4904)

2001-02-21 13:52:17# 126. lþ. 75.5 fundur 202. mál: #A orkukostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Fyrir allmörgum árum fór fram mikil uppbygging á raforkukerfi í sveitum sem smám saman leysti af hólmi þær dísilrafstöðvar sem víða höfðu verið við lýði og gert sitt gagn á sínum tíma. Þetta var gríðarlega mikið framfaraspor þegar þannig var að verki staðið og smám saman var verið að tengja sveitir landsins við aðalveitukerfi landsins og ýta burtu dísilrafstöðvunum sem fram undir það höfðu með taktföstum hljómi sínum oft rofið kyrrð sveitanna. Þetta var heilmikið mál, ekki bara vegna þess að þetta gerði það að verkum að orkukostnaður í sveitum víðast hvar lækkaði fyrir vikið heldur líka vegna þess að af því er margs konar hagræði og öryggi að geta nýtt sér það rafmagn sem kemur frá aðalveitusvæði landsins.

Það var ljóst að ekki var hægt að ljúka þessu máli að öllu leyti og tengja alla bæi við aðalveitukerfi landsins einfaldlega vegna þess að það var oft dýrt. Menn komu sér upp tiltekinni aðferð við að reikna út hvað þeir gætu gengið langt í þeim efnum. Mig minnir t.d. að gengið hafi verið út frá því varðandi orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða að um 6 km mættu vera að hámarki frá síðasta punkti sem rafveitt var og að næsta bæ til þess að Orkubúið treysti sér til þess að fara í þessa rafveitu.

Mig rekur minni til þess að á frumbýlisárum Orkubús Vestfjarða var þetta mjög mikið rætt á sínum tíma og ýmsir baráttumenn unnu að því að reyna að auka útbreiðslu rafmagnsins með þessum hætti. Sérstaklega man ég eftir þeim mæta og góða manni Baldri Bjarnasyni, oddvita í Vigur, sem talaði mjög fyrir mikilvægi þess að hraða þessari uppbyggingu og ræddi í því sambandi um hversu mikill munur hefði verið í Vigur þegar búið var að koma því þannig fyrir að þeir fengu, eins og hann orðaði það, sjálfrennandi rafmagn.

Nú hafa aðstæður breyst allmikið. Á undanförnum árum hefur olíuverð hækkað gríðarlega. Ég aflaði mér upplýsinga í morgun um að verð á gasolíu til húshitunar hafi verið í ársbyrjun 1999 19,50 kr. Ári síðar var það komið upp í 30,20 kr. og um síðustu áramót var það 39,19 kr. á lítra en hefur lækkað aðeins og er komið niður í 37,73 kr. Þetta er með öðrum orðum 100% hækkun sem hefur lagst mjög þungt á það fólk sem þarf enn þá að búa við dísilrafstöðvarnar og þarf að kaupa sér olíu til kyndingar og ljósa. Það er ljóst að þetta kallar á visst endurmat á þeirri stöðu sem uppi er. Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 212 að spyrja hæstv. iðnrh. um þessi mál.

1. Hve mörg lögbýli eiga þess ekki kost að kaupa orku frá veitukerfum orkufyrirtækjanna í landinu og hvernig skiptast þau eftir sýslum?

2. Hvað er áætlað að heildarorkuþörf þessara býla sé mikil og hvernig skiptist hún á milli húshitunar og annarrar notkunar?

3. Hversu mikið má áætla að húshitunarkostnaður þessara býla breyttist ef þau gætu keypt orku frá veitukerfum orkufyrirtækjanna? (Forseti hringir.)

Spurningar 4 og 5 má lesa á þskj. 212.