Börn og auglýsingar

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:30:43 (4919)

2001-02-21 14:30:43# 126. lþ. 75.7 fundur 459. mál: #A börn og auglýsingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil að það komi fram að ég tel að við séum að fjalla um mjög mikilvægt mál. Mér finnst það veigamikið sem ég lét koma fram í svari mínu áðan að Samkeppnisstofnun hefur lýst því yfir að allt efni þar sem með einum eða öðrum hætti er fjallað um börn og auglýsingar verði sett undir einn lið á heimasíðu stofnunarinnar. Ég held að það sé ekki fyrst og fremst það að lagaumhverfi og reglur séu ekki viðunandi heldur tel ég að mönnum sé ekki nægilega kunnugt um lögin. Með þessu held ég að málinu verði komið í betri farveg. Við getum að sjálfsögðu tekið þetta mál upp síðar ef okkur sýnist svo en þetta er þó a.m.k. ákveðin viðleitni. Ég vona að þetta verði til þess að betur verði að þessum málum staðið í framtíðinni.

Í sambandi við þann bækling sem hér hefur verið til umfjöllunar þá er ég þeirrar skoðunar, eftir að hafa farið í gegnum það með fagaðilum, að hann breyti kannski ekki öllu í þessu. Þess vegna eru ekki uppi áform um það að þýða hann. Ég þakka hins vegar hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessu máli. Mér finnst það mikilvægt og ég er tilbúin að vinna áfram að því og grípa inn í þar sem ástæða er til.