Viðgerðir á tveim varðskipum erlendis

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:49:22 (4955)

2001-02-26 15:49:22# 126. lþ. 76.1 fundur 327#B viðgerðir á tveim varðskipum erlendis# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Mér hefur ekki borist umrædd skýrsla frá VSÓ en heyrt óljóst af henni í fréttum. Ég hef hins vegar óskað eftir að fá hana í mínar hendur en mér skilst að mismunurinn milli hennar og þeirra útreikninga sem Ríkiskaup byggði niðurstöðu sína á komi einkum fram í siglingarkostnaði skipsins. Ég tel rétt að yfirfara það nánar.

Ég tek fram að dóms- og kirkjumrn. lagði á það áherslu við Ríkiskaup að kostnaður við að senda skipin utan yrði reiknaður til hin ýtrasta.

Það er alveg ljóst að fullur pólitískur vilji var til þess að farið yrði mjög nákvæmlega ofan í þetta mál og skoðað hvort hægt væri að koma þessum verkefnum til íslenskra skipasmíðastöðva. Ég tel víst að Ríkiskaup hafi staðið faglega að þessu máli og treysti þeim vel í þeim efnum. Það er hins vegar ljóst að skoða þarf ýmis atriði í þessu sambandi, ekki bara tölur um kostnað heldur líka um tímalengd viðgerða, tryggingar og ýmislegt fleira. Það er því litið á það hversu hagkvæmt tilboðið er í heild sinni. Rétt er að hafa þetta í huga.

Endanleg ákvörðun hefur verið tekin því að þetta er sú niðurstaða sem Ríkiskaup komst að í bréfi sínu til Landhelgisgæslunnar og þess vegna var fallist á hana. Menn eru bundnir af lögum og reglum um opinber útboð eins og hv. þm. benti á og verða auðvitað að lúta því, að öðrum kosti geta þeir fengið á sig kæru. Einnig er rétt að hafa hagsmuni skattgreiðenda í þessu sambandi í huga.

Ég tel hins vegar að gefnu tilefni að rétt sé að yfirfara betur framkvæmdina á þessum málum og er á þeirri skoðun að halda þurfi einhvers konar námskeið eða kynningu fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar um hvernig best sé staðið að tilboðum því að það eru mörg flókin atriði sem taka þarf til skoðunar. Íslendingar þurfa að mínu mati að vera betur undirbúnir á þessum samkeppnismarkaði.