Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:31:21 (4970)

2001-02-26 17:31:21# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er vissulega rétt ábending hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þó svo ég vilji ekki fara í einhverjar deilur um orðanotkun í þessu sambandi þá snýst þetta mál auðvitað um ferðafrelsi innan Schengen-svæðisins. Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að hin svokallaða og svonefnda frjálsa för er hluti af fjórfrelsinu sem EES-samningurinn kveður á um. Ég held því að þetta sé kannski ekkert aðalatriði í málinu. Hins vegar vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að með því að vera þátttakendur í Schengen erum við auðvitað hluti af því stóra svæði þar sem ferðafrelsi ríkir og um það er ekki deilt, a.m.k. hef ég ekki heyrt það hingað til. Ég er einneginn þeirrar skoðunar að annaðhvort tökum við þátt í þessu starfi að fullu eða þá við gerum það ekki og þá hefði Ísland ekki verið hluti af Schengen-svæðinu.