Lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:35:57 (5094)

2001-02-28 15:35:57# 126. lþ. 79.8 fundur 436. mál: #A lífeyristryggingar örorku- og ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. þar sem ég spyr um hvort ráðherrann hyggist bregðast við þeirri kjaraskerðingu sem öryrkjar verða fyrir við að ná 67 ára aldri vegna mismunandi reglna sem gilda í lífeyristryggingum almannatrygginga um örorkulífeyrisþega annars vegar og ellilífeyrisþega hins vegar. Eins og reglurnar eru í dag verða öryrkjar fyrir þó nokkurri kjaraskerðingu við það eitt að ná 67 ára aldri.

Sú kjaraskerðing og mismunum jókst svo verulega við breytinguna á almannatryggingalögunum í janúar í kjölfar dóms Hæstaréttar hjá þeim lífeyrisþegum sem eru í hjúskap. En tekjur maka öryrkjans sem skerða tekjutryggingu hans nú skerða minna en tekjur hans sem ellilífeyrisþega, þ.e. eftir lagabreytinguna í kjölfar dóms Hæstaréttar. Tekjur maka munu skerða að fullu tekjutrygginguna samkvæmt gömlu reglunni, auk þess sem frítekjumark vegna tekna lækkar verulega við það að fólk verði ellilífeyrisþegar.

Ekki er hinn fatlaði minni öryrki við að verða gamall en hann fær þúsund kr. lægri tekjutryggingu og svo skerðist hún. Ef hann er yfir rúmum 22 þús. kr. í tekjur byrjar hún að skerðast um 45% um það sem fer umfram, í stað þess að á meðan hann var öryrki voru tekjumörkin 33.600 kr. Það er því ljóst að lífeyrisþeginn sem verður 67 ára verður fyrir verulegri kjaraskerðingu og gilda um hann aðrar reglur en þegar hann var undir 67 ára aldri. Við vitum að þetta eru lágar greiðslur sem fólk fær, sérstaklega þeir sem eiga ekki rétt úr lífeyrissjóðum. Þetta eru um 71.000 kr. ef fólk býr eitt og 50.000 kr. ef það býr með öðrum.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort einhverjar leiðréttingar á þessu óréttlæti séu á döfinni. Ég vil einnig spyrja hvort ekki verði leiðrétting til ellilífeyrisþega í kjölfar dóms Hæstaréttar þar sem sama reglugerðin sem var ekki talin hafa lagastoð hjá Hæstarétti gildir um tekjutryggingu ellilífeyrisþega alveg eins og öryrkja. Þeir eiga að búa við sömu grundvallarmannréttindi samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Verður farið út í þessa lögjöfnun fyrir aldraða? Er stætt á því að mismuna fólki eftir aldri eins og gerist með öryrkjana sem ná 67 ára aldri?