Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 18:17:17 (5201)

2001-03-05 18:17:17# 126. lþ. 81.8 fundur 329. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat þess í ræðu sinni að hann vantaði svör við því hverjar hugmyndir mínar væru um að taka kvótann af þeim sem hann hefðu í dag og hvernig ég hugsaði mér að endurúthlutun færi fram á jafnræðisgrundvelli. Því er fljótsvarað. Það kom fram í umræðunni á sínum tíma. Ég geri ráð fyrir því að fyrna inn veiðiheimildirnar og miða við 3--5% fyrningu á ári. Það þýðir að ef miðað er við 5% á ári, þá er allt innleyst á 20 árum, þá hafa þeir sem eru með veiðiheimildirnar undir höndum í dag að meðaltali fullar tekjur af veiðiheimildum sínum í 10 ár.

En ef menn skoða verðlagningu á veiðiheimildum má reikna með að menn áætli að þeir þurfi að nýta þær í fimm til sjö ár til að greiða kaupverð af varanlegri aflahlutdeild og með því að hafa tíu ár, þá er ríflega fyrir því séð og jafnvel gert ráð fyrir ágóðahlut.

Ef miðað er við 3% fyrningu á ári, þá innleysist allt á 33 árum þannig að hver útvegsmaður hefur þá að jafnaði fullar tekjur af heimild sinni í helming þess tíma eða um 16 ár. Þessi umbreytingatími er því nokkuð langur, en hann er það ríflegur að ekki verður öðru haldið fram en að vel sé séð fyrir hagsmunum þeirra sem hafa fjárfest í greininni og ríflega það.

Hvað varðar endurúthlutun geri ég einfaldlega ráð fyrir að nýta mér markaðskerfið og bjóða heimildirnar til leigu á markaði til nokkurra ára í senn.