Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:06:36 (5234)

2001-03-06 15:06:36# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki við því að búast að hv. 17. þm. Reykv., Kolbrún Halldórsdóttir, hefði mikinn skilning á því að ýmsir okkar hafa áhuga á því að efla vísindarannsóknir en jafnframt hafa í höndum heimamanna og að við skulum hafa áhuga á því að færa slík störf norður. Nú eru aðrir tímar og jafnvel þó við förum ekki lengra aftur en til ársins 1974 þá hefur umhverfið breyst. Með hverju ári fjölgar ungu fólki sem lýkur háskólaprófi í ýmsum náttúruvísindum. Auðvitað eigum við að gefa því tækifæri til að setjast að þar sem rannsóknarsvæðin eru. Það er nútíminn. Það er hins vegar forræðishyggja og að hverfa aftur til fortíðar að staðna svo að ekki megi hugsa sér að við náttúruverndarstöð í Mývatnssveit vinni vísindamenn sem vilji búa í Mývatnssveit. Það er meira að segja svo að ung kona þarna af Fjöllunum er að læra til slíkra hluta og væri ekki amalegt ef þeirri konu gæfist kostur á því að búa á þessum slóðum, þar sem hún er upp alin og þekkir hverja þúfu, hvern stein, Jökulsána og hvað eina, og sækir að vera þar. Við erum að tala um að menntað fólk hafi tækifæri til þess að vinna að þeim verkum sem falla til úti á landi en þau séu ekki unnin hér. Það er það sem um er að ræða.

Hitt var algerlega rangt og uppspuni að gert hefði verið samkomulag milli ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, meðan Eiður Guðnason var umhvrh., og Náttúruverndar ríkisins um að námaleyfið yrði takmarkað í Mývatnssveit. Þetta er uppspuni. Hv. þm. getur ekki staðið við það og slíkt samkomulag liggur hvergi fyrir.