Aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:07:03 (5292)

2001-03-07 14:07:03# 126. lþ. 84.1 fundur 357. mál: #A aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin þó ég geti tekið undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni í ljósi þess m.a. að bréf forstjóra rannsóknastofnananna sem skrifað var til forsrn. er tveggja ára gamalt og hefði maður haldið að nægur tími hefði verið til að huga að þessu máli fyrr. En gott er að það er hafið.

Hér erum við að fjalla um grundvallaratriði, herra forseti. Ef stjórnvöld eru á því að greiða skuli gjald fyrir aðgang að slíkum upplýsingum held ég að þingheimur hljóti að vera mér sammála um að slík gjaldtaka eigi að vera hófleg og sanngjörn og alls ekki að hamla rannsóknarstarfi vísindastofnana hér á landi. Þetta hefur m.a. komið fram í þeirri miklu vinnu sem nú hlýst af lögum um umhverfismat þar sem leggja þarf til grundvallar miklar og vísindalegar rannsóknir og oft þarf reyndar því miður að gera miklar frumrannsóknir svo hægt sé að framkvæma umhverfismat og opinberar stofnanir eru að leggja í mikinn kostnað, m.a. við kortagerð og annað, þess vegna.

Ég er hins vegar alveg sammála hæstv. forsrh. um að hér ættum við að fara það sem kallað hefur verið hin ameríska leið, þ.e. að almenningur hafi ókeypis aðgang að rannsóknargögnum sem kostuð hafi verið af almannafé og eru vistuð á ríkisstofnunum. Mér þykir stefna bandarískra stjórnvalda til mikillar fyrirmyndar í þessum efnum, en það liggur fyrir að þar í landi er aðgengi almennings að opinberum upplýsingum og vísindalegum rannsóknargögnum líklega betra en nokkurs staðar annars staðar.