Forvarnastarf gegn sjálfsvígum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:27:36 (5300)

2001-03-07 14:27:36# 126. lþ. 84.3 fundur 437. mál: #A forvarnastarf gegn sjálfsvígum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er um mjög viðkvæm mál að ræða sem þó verður að tala um. Við heyrum af auknum sjálfsvígum, t.d. bænda í Danmörku og í Bretlandi. Þar er það áhyggjuefni að á því verði aukning í kjölfarið á þeim hörmungum sem þar ganga yfir í landbúnaði. Hver skyldi staðan vera hér á Íslandi? Við vitum það ekki svo gjörla.

Kjör bænda eru mjög misjöfn og er vægast sagt mikil fátækt í bændastétt. Ég vil vara við því að það séu gerðar óhóflegar kröfur til bænda þannig að þeir gefist hreinlega ekki upp og þessi staða komi ekki upp hér á landi.