2001-03-07 16:18:05# 126. lþ. 84.10 fundur 468. mál: #A yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvort Ísland sé aðili að yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi sem undirrituð var í Palermó á Sikiley í desember árið 2000.

Ég vil leiðrétta að hér er ekki um yfirlýsingu að ræða heldur alþjóðasamning, og var hann undirritaður fyrir Íslands hönd þann 13. desember sl. Ísland er því ekki orðið aðili að samningnum þar sem hann hefur ekki enn verið fullgiltur af Íslands hálfu. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að neitt ríki hafi fullgilt samninginn, enda tekur fullgildingarferlið hér og annars staðar lengri tíma.

Í öðru lagi er spurt hvað yfirlýsingin feli í sér er lýtur að skipulagðri verslun með manneskjur.

Þessu er til að svara að við samninginn eru tveir viðaukar og fjallar annar þeirra um baráttu gegn mansali, einkum kvenna og barna. Markmiðið með þeim viðauka er að sporna við slíkri glæpastarfsemi og vernda og aðstoða þolendur slíkra glæpa. Einnig miðar viðaukinn að því að efla samstarf ríkja til að ná þessum markmiðum.

Í þriðja lagi er spurt hvort þess sé að vænta að aðild að yfirlýsingunni kalli á lagasetningu hér á landi um efni hennar, svo sem verslun með manneskjur til kynlífsþrælkunar.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri glæpa\-starfsemi og þeir tveir viðaukar sem gerðir hafa verið við hann eru mjög umfangsmiklir. Einnig er nú verið að ljúka við gerð þriðja viðaukans sem fjalla mun um handvopn. Í ráðuneytinu hefur verið farið yfir samninginn og viðauka við hann með tilliti til þess hvort unnt væri að undirrita þá af Íslands hálfu. Ekkert var talið standa því í vegi, enda er hér um samning að ræða sem velflest ríki vilja vitanlega gangast undir. Hins vegar liggur ekki enn fyrir ítarleg úttekt á því hvaða lagabreytingar þarf að gera vegna aðildar að samningnum.

Í þeim efnum tel ég rétt að höfð verði hliðsjón af lagaþróun og umræðum annars staðar á Norðurlöndum, enda er söguleg hefð fyrir því að Norðurlöndin leitist við að halda réttareiningu á þessu sviði.

Herra forseti. Ég hef nú svarað þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég vil láta þess getið að samkvæmt gildandi lögum er mansal refsivert hér á landi samkvæmt ýmsum ákvæðum hegningarlaga. Í því sambandi má nefna ákvæði 226. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir:

,,Hver, sem sviptir annan mann frelsi sínu, skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Hafi frelsissvipting verið framin í ávinningsskyni eða verið langvarandi, svo og ef maður hefur verið settur í heimildarleysi á geðveikrahæli, fluttur burt í önnur lönd eða fenginn mönnum á vald, sem ekki eiga neinn rétt á því, þá skal beita fangelsisrefsingu ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum eða ævilangt.``

Þá vil ég geta þess að mansal til kynlífsþrælkunar getur vitanlega varðað við ýmis ákvæði XXII. kafla hegningarlaga um kynferðisbrot, þar sem þungar refsingar eru lagðar við brotum.

Að lokum þá þakka ég hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Þingmaðurinn vekur hér athygli á máli sem er vitaskuld þörf á að fylgjast með.