Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:09:19 (5793)

2001-03-15 11:09:19# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það vill svo til að ég og Hitaveita Suðurnesja höfum átt alllangan tíma saman. Ég sat þar stofnfund sem einn af fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum og hef starfað í stjórn fyrirtækisins undanfarin ár. Ég tel því að ég beri svolítið skynbragð á málefni fyrirtækisins og verð að segja að ég tel að nokkur þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin, af a.m.k. tveimur hv. þm. Vinstri grænna, eigi ekki við um þetta mál.

Í fyrsta lagi vil ég segja að þetta mál breytir engu um væntanlegt frv. sem við þingmenn eigum von á um nýja skipan í raforkumálunum. Þetta frv. er eingöngu til þess ætlað að festa í sessi, af hálfu ríkisins, aðild ríkisins að því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag í tengslum við sameiningu þess og Rafveitu Hafnarfjarðar. Að öðru leyti hefur frv. ekkert með skipan raforkumála að gera, hvorki verðlagsjöfnun né annað. Það mun engu breyta um framgang þjóðlendustarfsins sem óbyggðanefnd vinnur, nákvæmlega engu.

Ég tel raunar, herra forseti, að þær landareignir sem Hitaveita Suðurnesja á í dag, sem eru litlar, muni ekki varða þau mál svo nokkru nemi. Ef svo kynni síðar að verða, herra forseti, er alveg ljóst að fyrirtækið sem stofnað verður á grundvelli þessara laga og samkomulags annarra eigenda í fyrirtækinu mun gegna þeim skyldum sem Hitaveita Suðurnesja hefur gegnt fram til þessa. Það fær réttindin og skyldurnar svo lengi sem slík réttindi og slíkar skyldur verða til samkvæmt lögum um starfsemi í raforkumálum. Hið sama á við í frv. sem enn er til meðferðar í þinginu um Orkubú Vestfjarða. Það sama hefur átt við um breytingar á lögum um Landsvirkjun og um Rarik. Ekkert af þessu mun breytast fyrr en við fjöllum um lagafrumvörp um slík efni. Í þessu máli er ekki fjallað um slíkar breytingar.

Ég tel hins vegar rétt, herra forseti, að rekja aftur sjónarmið mín eins og við 1. umr. þar sem ég efast um að þau hafi komist til skila. Það vill svo til að samkeppni í raforkumálum í Íslandi snýst um 10% af orkunni. Landsvirkjun er ekki í samkeppni við neinn. Hún hefur algjöra einokun og ræður hvað aðrir mega gera. Hún framleiðir 90% af raforku á Íslandi og enginn annar hefur neitt með það að gera hvert hún er seld eða á hvaða verði. Allir hinir eru að slást um 10% markaðarins og þeir vænta þess að mega keppa við risann.

Hvernig skiptast svo þessi 10% sem eftir eru, herra forseti? Er það Hitaveita Suðurnesja sem er stærst? Nei, það er Orkuveita Reykjavíkur. Hún framleiðir um 2/3 af því sem afgangs er. Hvar er þá þessi risi sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson var að tala um?

Þetta frv., rétt eins og frv. um Orkubú Vestfjarða, snýst um að skapa litlu fyrirtækjunum í þessari grein tækifæri til að standast keppnina við risana þegar þeir byrja að hreyfa sig. En, herra forseti, þeir eru byrjaðir að hreyfa sig.

Allan síðasta áratug hafa verið fréttir af því í fjölmiðlum að Orkuveita Reykjavíkur, áður Hitaveita Reykjavíkur, væri að kaupa landareignir á Suðurnesjum. Um skeið var gefið í skyn að fyrirtækið þyrfti að kaupa allt sem borgarstjóri sæi út um gluggann hjá sér. Í því sambandi var rætt um Keili. Hið rétta var að það var ekki verið að tala um Keili heldur hugsanlegar orkulindir, þ.e. jarðhita á Suðurnesjum. Ekki í borgarlandinu, ekki einu sinni í nágrenni við það því að nokkur sveitarfélög eru þar á milli. Ef sama hefði átt við, og borgarstjóri útskýrði, hefði hún auðvitað keypt Akrafjallið en hún hafði engan áhuga á því.

Mergurinn málsins er, herra forseti, að eigendur þessa fyrirtækis hafa óskað þess að fá tækifæri til að undirbúa það fyrir komandi samkeppni. Þeir vita ekkert hvernig hún verður eða hvenær hún fer af stað. Það vita einhverjir aðrir.

Í hvert sinn sem þetta fyrirtæki hefur hreyft sig eftir væntanlegum heimildum til að virkja og selja raforku hefur komið í ljós, svo við tölum bara í hreinskilni, að iðnrn. veitir leyfi til þess sem Landsvirkjun leyfir. Þannig hefur þetta verið. Ef okkur tekst betur til þegar ormurinn langi kemur hingað, herra forseti, lagafrv. um nýja skipan raforkumála á Íslandi, þá vænta þessi fyrirtæki þess að þau fái jafnræði, fái að sækja um heimildir til að virkja og framleiða og selja raforku eftir gegnsæjum skilyrðum sem eigi við um alla. Þannig hefur það ekki verið á Íslandi. Ég tel það skipta miklu máli að við sköpum það andrúmsloft að litlum fyrirtækjum í þessari grein eins og öðrum verði gert fært að lifa og berjast við þau stærri. Við vitum hver afleiðingin verður ef það tekst ekki. Þau verða hreinlega étin. Þau verða ekki einu sinni keypt á fullvirði.