Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:33:02 (5985)

2001-03-26 17:33:02# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér sýnist af þeim áhuga og væntumþykju sem hér er í garð sparisjóðanna, af metnaðinum fyrir þeirra hönd og viðskiptavina þeirra, að efh.- og viðskn. hljóti að ná góðri niðurstöðu um málið sem hér er til umræðu, þ.e. að veita sparisjóðunum heimild til að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélög. Ég skildi þetta frv. þannig, virðulegi forseti, sem tveir af forsvarsmönnum sparisjóðanna í landinu tóku þátt í að vinna, að væri þessi heimild til staðar fyrir þá sem vildu breyta rekstrarformi sparisjóðanna þá væru þeir hæfari til að taka þátt á þeim samkeppnismarkaði sem ríkir í dag.

Sparisjóðirnir hafa starfað lengi og þeir elstu eru að mig minnir orðnir yfir 100 ára gamlir. Á þessum tíma hafa þeir sinnt hlutverki sínu afar vel. Ég er að vísu svo óheppin að vera ekki á svæði þar sem starfræktur er sérstakur sparisjóður sem ég er bundin tilfinningaböndum eins og sumir hér. Hins vegar hef ég kynnt mér svolítið rekstur þessara stofnana. Ég tel að þær séu afar mikilvægur hlekkur í fjármálakerfi okkar og hafi verið það í gegnum tíðina. Byggðapólitískt hlutverk sparisjóðanna hefur verið mjög stórt.

Ég hef skilið frv. svo að fyrst og fremst væri verið að leita leiða til að menn geti áfram sinnt hinu byggðapólitíska hlutverki. Það er t.d. ekki sjálfgefið, af því að hér er talað um litlu sparisjóðina sem geti sameinast tveir eða þrír í einn voldugan sparisjóð, að það gangi auðveldlega fyrir sig miðað við þá löggjöf sem við búum við í dag. Að peningarnir haldist á svæðinu og séu nýttir samkvæmt þeirri stofnskrá sem er í gildi og tryggt sé að sjóðirnir sinni hlutverki sínu, aldeilis ekki. Frv. á hins vegar að auðvelda sparisjóðunum að sameinast. Eins og ég skil það er verið að auðvelda sparisjóðunum að taka þá ákvörðun, t.d. á stærri svæðum eins og á Vestfjörðum. Það er sérstakt ákvæði til bráðabirgða í frv. þess efnis að auðvelda þeim að sameinast, þó þannig að þeir geti áfram sinnt hlutverki sínu hver á sínu svæði, þ.e. viðkomandi þjónustusvæði sparisjóðanna fyrir sameiningu. Það skiptir miklu máli að við forðumst að ganga þannig frá málum að það komi niður á eigendum sparisjóðanna og þeim sem hafa átt viðskipti við sparisjóðina og stofnfjáreigendum. Viðskiptavinum sem hafa hafið viðskipti við sparisjóði, m.a. vegna stofnskrár og þeirra ákvæða sem gilda um starfsemi þeirra, þeim sem hafa valið sparisjóðina sem viðskiptabanka umfram aðra til að styrkja sparisjóð á heimasvæði og þá starfsemi sem þeim er ætlað að sinna af sínu eigin fé.

Í seinni tíð hafa orðið miklar breytingar á fjármagnsmarkaðnum og margir hafa viljað styrkja stöðu sparisjóðanna. Ekki sjá þá deyja drottni sínum. Þess vegna var farið að leita leiða til að bæta samkeppnisstöðu þeirra. Þær leiðir sem hér er bent á virðast mér býsna góðar. Hvort til eru aðrir betri leiðir sem við eigum að skoða hlýtur að koma fram í umsögnum frá sparisjóðum, sveitarfélögum og þeim sem haldið hafa utan um þennan rekstur í áranna rás. Við hljótum að leita eftir umsögnum þeirra. Ég býst við að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að þeir sparisjóðir sem ekki vilja breyta rekstrarforminu geri það. Hér er aðeins um heimild að ræða. Það er ekki verið að neyða neinn til eins né neins. Þetta er ekki lögþvingun heldur heimild sem sumir sjá sem vænlegan kost til að viðhalda sparisjóðunum, styrkja þá og jafnframt geta haldið eigin fé í heimabyggð. Að frv. hafa starfsmenn sparisjóðanna komið, m.a. að mig minnir framkvæmdastjóri Sambands ísl. sparisjóða, Sigurður Hafstein, sem sat í þessari nefnd.

Ég treysti því að eftir mikla skoðun hafi menn talið þessar leiðir vænlegastar en einnig skoðað hvernig staðið hefur verið að þessu annars staðar. Sparisjóðir eru aldeilis ekkert óþekkt fyrirbæri hjá öðrum þjóðum. Þeir eru mjög sterkir víða í Evrópu og við erum í raun, ef við skoðum hlut sparisjóða í innlánum í bankakerfinu, í 9. sæti ef tekin eru Evrópulöndin. Þeir eru hins vegar reknir með mjög mismunandi fyrirkomulagi og við í efh.- og viðskn. hljótum að leggja í það vinnu að skoða leiðirnar sem aðrar þjóðir hafa valið og hvort þær eru á einhvern hátt heppilegri en það sem lagt er til í frv. Um það skal ég ekki segja. Megintilgangur frv. er að reyna að viðhalda styrkleika sparisjóðanna í heimabyggð eins og verið hefur.

Nefndin þarf einnig að taka til skoðunar atriði eins og hvernig valið verður að fara með þá sjálfseignarstofnun sem á að stofna í kringum eigið fé sparisjóðanna, hvort heppilegast sé að stofnfjáreigendur, sem mega samkvæmt ákvæðum frv. aðeins fara með 5% hluta atkvæða á fundi, myndi samt sem áður 30 manna fulltrúaráð, að lágmarki 30 manna, og kjósi síðan stjórn þessarar sjálfseignarstofnunar. Þar með væru stofnfjáreigendur komnir með ægivald yfir fjármagninu en það er ekkert meira vald en þeir hafa í dag. Við erum að tala um sama fólkið með sömu völdin þannig að breytingin er kannski ekki svo mikil. Frv. er aðallega til þess ætlað að treysta það að þeir sem fara með ráðin í sparisjóðunum og hafa framfylgt ákvæðum stofnskrár og laga um sparisjóðina haldi áfram að vinna í sama anda enda vilji þeir nota fjármagnið til uppbyggingar á heimasvæði.

Hér hafa verið nefndar aðrar leiðir, t.d. svokölluð norska leiðin eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kallar hana. Ég tel sjálfsagt að efh.- og viðskn. skoði hvort hún er vænlegri. Við hljótum að skoða málið út frá dreifðri eignaraðild og hvernig farið verður með lýðræðið og ákvörðunarvaldið. Ég verð þó að segja, virðulegi forseti, að Samfylkingingin er hlynnt því að sparisjóðirnir fái heimild til þess að breyta rekstrarformi sínu. Við erum hlynnt því og við teljum að þeir sem þar hafa farið með stjórn séu best færir til að segja okkur hvaða leið sé best til þess fallin.

Ég verð hins vegar, virðulegi forseti, að játa að hér erum við að ræða tvö slík frumvörp á hv. Alþingi, um heimild til tveggja stofnana til þess að breyta rekstrarformi sínu. Annað fjallar um rekstrarform sparisjóðanna og hitt um samvinnufélögin, sem eiga að fá heimild til að breytast í hlutafélög. Þar er valin önnur leið vegna þess að grunnurinn er ólíkur. Grunnurinn að starfseminni, annars vegar samvinnufélaganna, og hins vegar sparisjóðanna, er mjög ólíkur. Þess vegna fara menn tvær ólíkar leiðir.

Ég leit, virðulegi forseti, þannig á að þegar við værum með gildandi lög um hlutafélög í landinu þá væri kannski eðlilegra að þróunin yrði í þá veru að heimildin gilti til þess að menn störfuðu eftir þeirri löggjöf sem gildir um hlutafélög, við værum ekki með lög um hlutafélög og síðan afbrigði af lögum um hlutafélög, eins og ég lít á að þetta frv. verði ef það verður samþykkt, að um verði að ræða afbrigði frá lögum um hlutafélög.

Eins er það hvað varðar samvinnufélögin. Þar erum við með tilbrigði við hlutafélög en engu að síður hlutafélag. Þetta finnst mér flækja löggjöf okkar og síðan fylgja þessu ákveðnar skattaívilnanir sem önnur fyrirtæki sem vilja breyta rekstrarformi sínu í hlutafélögin búa ekki við. Löggjöfin er því langt frá því að vera einföld og skilvirk. Það er nokkuð sem við hljótum að skoða í umfjöllun okkar og þá koma örugglega fram þær skýringar sem til þarf.

Lagt er til að breyting verði á tilnefningu í stjórn og ekki skilyrt lengur að sveitarfélögin eða héraðsnefndirnar tilnefni í þær. Við eigum eftir að heyra sjónarmið þeirra sveitarfélaga sem hingað til hafa tilnefnt í stjórnir sparisjóða og hvort þeim finnst þetta skref aftur á bak eða hvort þeim finnst þetta er fullkomlega eðlilegt í kjölfar þess að rekstrarformi sé breytt.

Virðulegi forseti. Ég tek skýrt fram að við fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. leggjumst ekki gegn því að sparisjóðunum verði heimilað að breyta rekstrarformi sínu. Við munum fara yfir þau atriði sem hér hafa verið nefnd og þær leiðir sem sparisjóðir geta farið að breyttu rekstrarformi. Við munum fara mjög vel yfir það í starfi okkar og fyrst og fremst það sem lýtur að sjálfseignarstofnuninni og stjórn hennar, þ.e. hvernig staðið verður að því að tryggja dreifða eignaraðild innan hlutafélaganna.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta við 1. umr. en tel að markmið okkar sé það eitt að sparisjóðirnir geti áfram sinnt hlutverki sínu í byggðarlögum líkt og gert er ráð fyrir í stofnskrám þeirra og lögum um sparisjóði. Þetta er sú leið sem nefndin sem vann frv. valdi, þar áttu sparisjóðirnir sína fulltrúa og ég reikna fastlega með því að þeir hafi sent umsagnir sínar inn áður en frv. var lagt fram. Við munum kalla eftir umsögnum. Hvort við getum fallist á að þetta sé vænlegasta leiðin á eftir að koma í ljós í nefndarstarfinu.