Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 18:13:19 (6057)

2001-03-27 18:13:19# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál hér. Það er einungis eitt atriði sem ég hef verulegar áhyggjur af hvað varðar það mál sem hér er til umræðu, en það er stjórnarfyrirkomulag sparisjóðanna. Ég er satt að segja afar hugsi yfir því hvernig hv. Alþingi getur gengið frá þeim málum þannig að eitthvert samræmi sé í þeirri afgreiðslu miðað við það hvernig Alþingi hefur fjallað um og er að fjalla um aðrar fjármálastofnanir.

Hér liggur einnig fyrir hv. Alþingi frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálastofnunum. Þar er verið að taka á stjórnun á fjármálastofnunum, algjörlega sambærilegum stofnunum og þeir sparisjóðir svokölluðu verða sem hér er verið að fjalla um. Þar hafa menn áhyggjur af því og eru þess vegna að leggja til að sett verði ströng lög um að Fjármálaeftirlitið eigi að fylgjast með eignarhlut í þeim bönkum og fjármálastofnunum sem fjallað er um í því frv. sem ég nefndi áðan.

[18:15]

Þar er ekki aldeilis verið að tala um að menn hafi meiri ráð yfir eignarhlut sínum, meiri ráð en sem svarar til eigin eignarhlutar. Hér er aftur á móti gert ráð fyrir því að í framtíðinni geti þeir sem eiga tiltölulega mjög lítinn hlut af eigin fé þessara fjármálafyrirtækja sem hér um ræðir ráðið þeim gjörsamlega. Ég er ekki með þessu að kasta neinni rýrð á það hvernig menn hafa stjórnað þessum fjármálastofnunum til þessa en auðvitað verður eðlisbreyting á þessum fjármálastofnunum ef þeim verður breytt í hlutafélög. Menn fara auðvitað að líta á þessa sparisjóði mjög svipuðum augum og þeir líta á önnur hlutafélög. Það verður krafa um að þetta verði fyrirtæki sem standi jafnfætis í samkeppninni og að þeim verði stjórnað með sömu arðsemiskröfum og gerðar eru annars staðar í samfélaginu, í því viðskiptasamfélagi sem þeir hrærast í og keppa við önnur fyrirtæki í.

Engin ástæða er til að draga fjöður yfir það, ef mönnum finnst eins og mér að til framtíðar sé ekki heppilegt að jafnvel örfáir aðilar, eins og kemur greinilega fram í gögnum sem fylgja með þessu frv., þar er greinilegt að í sumum sparisjóðunum eru aðeins örfáir sem eiga stofnfé og munu ráða alfarið þessum sparisjóðum, muni ráða alfarið hverjir verða í stjórn í sparisjóðnum sjálfum eða bankaráðinu eða hvað menn vilja kalla það og munu líka ráða alfarið hverjir skipa stjórn eignarhaldsfélagsins. Ég hef miklar áhyggjur af því að þetta sé ekki fyrirkomulag sem hv. Alþingi getur afgreitt þannig frá sér og menn verði að horfast í augu við að leita leiða til þess að það komi stjórnendur að þessum eignarhlutum sem verða ekki í höndum stofnfjáraðilanna. Það verði bara tekið á því máli. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að það verði skoðað og mér finnst að hv. nefnd þurfi að leggja sig í framkróka við að reyna að finna einhverja leið til þess. Ég held að helsta leiðsögnin í því hljóti að vera sú sem felst í ákvæðunum hjá öllum þessum stofnunum um það hvernig eigi að fara með fé þessara stofnana ef þær verða lagðar niður. Þar sé helst að finna leiðsögnina. Ég ætla ekki að fara að úttala mig um einhverjar tillögur um það nákvæmlega hvernig eigi að gera þessa hluti. En ég tel að það þurfi að leggja verulega vinnu í það að finna leið út úr þessu. Ég bendi á að í þeirri skrá sem fylgir hér um stofnfé og stofnfjáreigendur sparisjóða, er fjöldi stofnfjáreigenda alveg niður í það að vera tveir og þessir tveir stofnfjáreigendur fara þá alfarið með þetta vald. Það er mjög mismunandi fjöldi sem þarna er á bak við, allt upp undir rúmlega 900 manns sem eru á bak við í einum sparisjóðnum.

Nú ætla ég ekki að spá neinu um það hvort þessum fyrirtækjum verði breytt í hlutafélög og hverjir það geri eða hve margir. En ég kom eingöngu upp til að láta það koma fram að mér finnst þetta, svo ég taki vægt til orða, afskaplega mikið umhugsunarefni hvort þetta geti gengið inn í framtíðina að þetta verði með þeim hætti eins og þarna er lagt til. Ég legg eindregið til að nefndin fari mjög vel yfir það hvort ekki sé hægt að finna leið út úr þessu þar sem fyrst og fremst verði reynt að rýna í hvað átti að gera við þessar eignir þegar átti að leggja sparisjóðina niður og leita með þeim hætti að þeim sem ættu þá að koma að stjórn þess eignarhaldsfélags sem þarna er talað um að stofna.