Steinsteypa til slitlagsgerðar

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:48:56 (6079)

2001-03-28 13:48:56# 126. lþ. 101.1 fundur 535. mál: #A steinsteypa til slitlagsgerðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er fróðlegt að fylgjast með því hversu margir sérfræðingar í gatna- og vegagerð eru á Alþingi. Út af fyrir sig er ánægjulegt að heyra það. Ég býst að sjálfsögðu við góðum stuðningi. Einn hv. þm. sem talaði er reyndar sérstakur sérfræðingur í vegagerð og að sjálfsögðu er mikils virði að njóta leiðsagnar slíkra aðila.

Sá sem hér stendur hefur fylgst allnokkuð með þessu og tók þátt í því sem bæjarstjóri að láta steypa götur. Vandamálið hjá sveitarfélögunum úti um landið var lengi vel hve erfitt var að nýta sér malbik. Það var of langt að flytja það. Síðan kom þessi tækni, klæðningartæknin sem skapað hefur möguleika á að koma bundnu slitlagi á vegakerfi landsins mun hraðar en gerst hefði með því að nota steypu sem kostar mun meira.

Ég vek hins vegar athygli á því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem umferðin er mest og hagkvæmnin af því að nýta steypuna ætti að vera mest, hafa ekki valið þann kost. Það er þannig ekki einungis Vegagerðin sem hefur komist að þessari niðurstöðu. Ég hef lagt á það áherslu að skapa möguleika á að velja þessa tvo kosti og mikilvægt sé að horfa til lengri tíma. Það hefur Vegagerðin að sjálfsögðu lagt sig fram um að gera. Við þurfum að byggja vegakerfi okkar hratt upp en við þurfum líka að huga að framtíðinni og því að þessi mannvirki endist.