Grunnskólar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:58:22 (6766)

2001-04-24 18:58:22# 126. lþ. 110.24 fundur 667. mál: #A grunnskólar# (starfstími, próf í íslensku o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum.

Þetta frv. á það sammerkt með hinum fyrri sem ég hef hér mælt fyrir og varða skólastigin að með því eru lagðar til breytingar á lögum um grunnskóla í samræmi við óskir Sambands íslenskra sveitarfélaga á grundvelli þess kjarasamnings sem gerður var á milli launanefndar sveitarfélaganna, Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands, dags. 13. mars 2001. Hugmyndirnar í þessu frv. eru byggðar á bréfum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Helstu nýmæli frv. eru eftirfarandi:

1. Ákvæði er lúta að umboði skólastjóra og ábyrgð gagnvart sveitarstjórn á starfsemi grunnskóla eru gerð skýrari.

2. Í stað afdráttarlauss ákvæðis um að starfstími grunnskóla sé níu mánuðir á ári verði kveðið á um níu mánaða lágmarksstarfstíma nemenda á hverju skólaári.

3. Heimilað verði að víkja frá ákvæðum um lögbundnar dagsetningar jóla- og páskaleyfa nemenda sem eru frá og með 21. desember til og með 3. janúar og páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Ef vikið verður frá þessum dagsetningum ber að kveða á um slíkt í skólanámskrá og er við slík frávik ekki heimilt að skerða lögboðinn hvíldartíma nemenda á skólaárinu.

4. Heimilað verði að veita nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í íslensku í 4. og 7. bekk og undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í stærðfræði í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár. Samkvæmt núgildandi lögum er einungis heimilt að veita nemendum með annað tungumál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt lokapróf í íslensku, en þau próf eru nú orðin valfrjáls og er því núgildandi undanþáguheimild vegna samræmdra lokaprófa í íslensku óþörf.

[19:00]

Síðasta efnisatriðið sem ég nefndi er ekki komið inn í frv. að ósk Sambands ísl. sveitarfélaga eða kennara sérstaklega heldur er það að frumkvæði menntmrn. sem við setjum þetta ákvæði inn í lagatextann til að geta komið til móts við þá nemendur sem þar er fjallað um.

Herra forseti. Í almennum athugasemdum við frv. er þetta rökstutt nánar. Ég tel sjálfur að það mikilvægasta í þessu frv. sé að sjálfsögðu að verið er að breyta ákvæðunum um starfstíma grunnskólans, þ.e. að í stað afdráttarlauss ákvæðis um að starfsemi grunnskóla sé níu mánuðir á ári verði kveðið á um níu mánaða lágmarkstíma nemenda á hverju skólaári. Eins og hv. þm. vita gerðist það í kjarasamningnum að aðilar komu sér saman um að skóladögum skyldi fjölgað um tíu og 180 skóladagar nemenda skyldu rúmast á tímabilinu frá 20. ágúst til 10. júní en það segir í greinargerð launanefndarinnar og Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélagsins að launanefnd sveitarfélaganna og Kennarasambands Íslands hafi með kjarasamningi ákveðið að skóladagar nemenda skuli vera 180. Sveitarfélögin hafa með þessum kjarasamningi sett markið hærra en lögin gera ráð fyrir en orðalag lagagreinarinnar á ekki að hindra þá eflingu skólastarfs sem launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands hafa komið sér saman um.

Þá segir enn fremur í greinargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:

Skóladögum verði fjölgað um tíu og 180 skóladagar nemenda skulu rúmast á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Tilgangurinn með fleiri skóladögum er fyrst og fremst sá að auka fjölbreytni skólastarfsins, t.d. til að fylgja eftir nýrri aðalnámskrá, en líka til að gefa skólum tækifæri til að laga skólastarfið enn frekar að þörfum skólasamfélagsins og síbreytilegum og auknum kröfum þess þjóðfélags sem við lifum í. Einnig er þörf á að fjölga skóladögunum vegna þess að 170 lögbundnir dagar rúma ekki þá starfsemi sem skólarnir bjóða upp á.

Menntmrn. óskaði eftir nánari greinargerð um þessa lengingu skólaársins. Við fengum svohljóðandi svar:

,,Í bréfi ráðuneytisins, dags. 27. mars sl., er spurst fyrir um hvernig þeir 10 viðbótarskóladagar sem kjarasamningurinn kveður á um geti verið notaðir. Samningsaðilar hafa sameiginlega svarað opinberlega fyrirspurn sama efnis með eftirfarandi hætti: ,,10 viðbótardagar eru skóladagar nemenda sem eiga að nýtast til að auka fjölbreytni skólastarfs. Þeir eru þó ekki endilega bundnir við hefðbundna kennslu heldur getur skólinn ákveðið í skóladagatali að þeir verði notaðir, t.d. undir jólatrésskemmtun, foreldraviðtöl eða annað óhefðbundið skólastarf ef sveitarstjórnin samþykkir þá tilhögun með staðfestingu á skóladagatali.````

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi að þær breytingar sem verða á innra starfi grunnskóla geta verið mismunandi eftir skólum og ber að fjalla um það í skólanámskrá skólanna þar sem allir aðilar, foreldrar, kennarar og skólastjóri koma að og síðan þarf sveitarstjórnin að staðfesta skóladagatalið. Ég held því að í grunnskólalögunum sé gert ráð fyrir skynsamlegu ferli til að sem víðtækust sátt náist um það á einstökum stöðum hvernig að þessu verði staðið. Það er einmitt atriði sem þarf líka að hafa í huga þegar menn huga að ákvæðunum um lögbundnar dagsetningar jóla- og páskaleyfa og þau atriði að þá er það náttúrlega mál sem þarf að fjalla um í skólanámskrá og fleiri aðilar þurfa að koma að en stjórnendur skólanna.

Herra forseti. Ég legg þetta frv. hér fram og óska eftir að því verði vísað til hv. menntmn. að lokinni umræðunni og vona að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi eins og hin tvö frumvörpin sem lúta beinlínis að framkvæmd nýgerðra kjarasamninga á þessum þremur skólastigum.