Uppbygging tæknináms á háskólastigi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:27:22 (6824)

2001-04-25 15:27:22# 126. lþ. 112.6 fundur 595. mál: #A uppbygging tæknináms á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Því miður hafa þær viðræður sem hæstv. menntmrh. var að gera grein fyrir að hefði slitnað upp úr 12. febrúar tekið of langan tíma og haft áhrif á þróun þess skóla sem hér um ræðir. Það er því afar mikilvægt að komist verði að niðurstöðu varðandi skólann sem allra fyrst.

Við gerð fjárlaga undanfarin ár hefur í raun skort viðmiðunartölur fyrir þennan skóla, sambærilegar við aðra skóla á háskólastigi, þar sem náðst hafa samningar við skólana um fjárframlögin. Það er mikilvægt að niðurstaða náist í málinu þannig að ekki þurfi enn einu sinni að samþykkja fjárlög á Alþingi án þess að taka tillit til eðlilegrar þróunar þess mikilvæga skóla sem hér um ræðir.

Ég tek undir það með hæstv. menntmrh. að það verður auðvitað að ákveða sem allra fyrst hvaða leið menn vilja fara. Það verður síðan að fara í efnislega umræðu um það hvort menn séu sammála um þá niðurstöðu.

Ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann geri ráð fyrir því að það verði komin niðurstaða í málið fyrir samþykkt næstu fjárlaga.