Virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:53:28 (6837)

2001-04-25 15:53:28# 126. lþ. 112.8 fundur 594. mál: #A virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir því að hv. fyrirspyrjanda sé kunnugt að í lögum um virðisaukaskatt og í reglugerðum sem á þeim lögum byggja eru ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir þá mismunun sem hún gerir að umtalsefni í fyrirspurn sinni.

Í ákvæðum upphaflegu laganna frá 1988 er grein sem hefur þann tilgang að tryggja samkeppnisstöðu þeirra sem selja sambærilega þjónustu og eigin not óskráðra aðila lúta að. Í 3. gr. reglugerðar frá 1990 um þetta mál, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, kemur fram að fyrirtæki ríkis, stofnanir þess og þjónustudeildir sem inna af hendi þjónustu til eigin nota, skuli greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Samkvæmt gildandi rétti á reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, sem og reglugerð nr. 248/1990, að tryggja að aðilum sé ekki mismunað á þessum markaði. Ég tel því að gildandi réttur mismuni ekki aðilum, hvorki hugbúnaðarfyrirtækjum né öðrum í sambærilegri aðstöðu, eftir því hvort þau greiða virðisaukaskatt af vinnu sinni eða eru deildir innan fyrirtækja sem greiða ekki virðisaukaskatt. Því til stuðnings er m.a. hægt að vísa til ákvörðunar samkeppnisráðs frá því á síðasta ári, nr. 16/2000, í tilteknu máli sem þar var til úrlausnar, en í þeirri ákvörðun sem varðaði endurgreiðslu virðisaukaskatts af útseldri þjónustu komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að ekki verði talið að lög og reglur um virðisaukaskatt mismuni keppinautum í skilningi samkeppnislaga.

Þetta á einnig við þá aðila sem hafa með höndum starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti. Kveðið er á um að þeir skuli greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota, ef hún er í samkeppni við skattskylda aðila.

Þessi ákvæði miða sem sé að því að virðisaukaskattur hafi ekki áhrif á val þeirra er stunda starfsemi er fellur utan skattskyldusviðsins á því hvort þeir kaupa að þjónustu eða inna hana sjálfir af hendi. Þessum ákvæðum er þannig ætlað að tryggja samkeppnisstöðu þeirra atvinnufyrirtækja er selja þjónustu sambærilega við þá þjónustu sem innt er af hendi innan stofnana og fyrirtækja er stunda starfsemi sem fellur utan við skattskyldusviðið.

Að því er varðar hugbúnaðarfyrirtæki sérstaklega er ljóst að það eru til staðar atvinnufyrirtæki sem almennt bjóða fram sérfræðiþjónustu sína við gerð og viðhald hugbúnaðar. Raunin kann að vera sú að notendur stórtölva kjósi að þjónusta sig sjálfir fremur en kaupa þjónustu á sviði hugbúnaðar af atvinnufyrirtækjum og þar af leiðandi lítið eða ekkert um það að atvinnufyrirtæki selji slíka þjónustu við stórtölvuna. Engu að síður telst eigin þjónusta stórtölvunotenda vera í samkeppni við þjónustu atvinnufyrirtækja samkvæmt þeirri skilgreiningu sem ég hef vitnað til í reglugerð nr. 562/1989.

Að öllu framangreindu virtu tel ég sýnt að vilji löggjafans og reglugerðargjafans hafi jafnan staðið til þess að á þeim sem stunda starfsemi sem fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts hvíli skylda til að reikna og skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af þjónustu við gerð og viðhald hugbúnaðar, þ.e. forritun, jafnt vinnslukerfa sem stoðkerfa, sem fram fer innan viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

Sama máli gegnir um innri þjónustu við viðgerðir og viðhald tækjabúnaðar, svo sem tölvuvélbúnaðar.

Óhaggaðar standa því forsendur fyrir áliti sem ríkisskattstjóri hefur gefið upp, að þjónusta af umræddum toga, sem viðkomandi aðilar inna sjálfir af hendi í eigin þágu, sé virðisaukaskattsskyld.

Skráning og önnur innfærsla upplýsinga í tölvukerfi, vinnslur sem í kerfunum fara fram sem liður í skilgreindri starfsemi og aðstoð við notendur er hins vegar þjónusta af sama toga og almennt er venjulegt að fari fram í fyrirtækjum og stofnunum sem liður í þeirra eigin starfsemi. Sama á við um daglegan rekstur stoðkerfa, svo sem stýrikerfa, gagnagrunna, öryggiskerfa, skrifstofukerfa og verkbókhalds. Slík innri þjónusta telst ekki vera samkeppni við þjónustu sem atvinnufyrirtæki veita í þeim skilningi sem ber að leggja í hugtakið samkeppni í þessu sambandi. Því ber að líta svo á að viðkomandi aðilum beri ekki skylda til að reikna og skila virðisaukaskatti af slíkri þjónustu til eigin nota.