Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 02. maí 2001, kl. 17:27:56 (7183)

2001-05-02 17:27:56# 126. lþ. 116.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv., 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz gerði í ræðu sinni mikið úr bókunum og fyrirvörum framsóknarmanna. Nú liggur ljóst fyrir að dýr væri Hafliði allur í þessu samhengi. Allir stjórnarþingmenn hafa gert mikið úr hinni hröðu þróun í fjarskiptamálum. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Jónínu Bjartmarz hvort það sé ekki skammgóður vermir að losa um fjármagn til að gera tæknilegar ráðstafanir núna en horfa ekki til framtíðarinnar hvað varðar þjónustu við landið allt. Þetta snýst ekki bara um okkur landsmenn vegna þess að við erum mikið ferðamannaland. Það er bráðnauðsynlegt vegna þeirra stóru atvinnugreinar að öllu landinu sé þjónað. Það var talað um 150 manns. Það eru til stórir hreppar með víðfeðmum landsvæðum þar sem búa bara örfáir tugir.

Við verðum náttúrlega að fá svör við þessum spurningum. Það er m.a. þess vegna sem við höfum lagst gegn frv. Við viljum að þetta sé rekið á vegum ríkisins til þess að þjóna pólitískt eins og við höfum haft ágæta reynslu af.

Síðan langar mig, virðulegi forseti, að heyra um framtíðarsýn þingmannsins á grunni þeirrar ákvörðunar sem hún hefur tekið um einkavæðingu Landssímans. Til hvers leiðir einkavæðingin? Hvað líður á löngu þangað til við höfum bara eitt stórt fyrirtæki á grunni Landssímans sem verður þá einkarekið einokunarfyrirtæki? Telur þingmaðurinn að það sé góð lausn fyrir Ísland? Telur þingmaðurinn t.d. að það verði góð lausn fyrir dreifbýlið? Hvernig heldur þingmaðurinn að dreifbýlinu verði þjónað á grunni slíks fyrirtækis ef sú sýn er uppi? Þóknast hv. þm. sú hugsun að það verði metið á fjárlögum hvers árs hvort það eigi að vera símaþjónusta í hinum dreifðu byggðum og strjálbýlu dölum landsins?