Reikningsskil og bókhald fyrirtækja

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:09:40 (7250)

2001-05-09 11:09:40# 126. lþ. 117.4 fundur 691. mál: #A reikningsskil og bókhald fyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að gera því skóna að verðlagshræringar að undanförnu þurfi að hafa nokkur áhrif á það sem hér er til umræðu og hefur verið í undirbúningi. Við gerum ráð fyrir því að þar séu skammtímahreyfingar á ferðinni.

Ég vil bæta því við svar mitt við síðustu spurningu hv. þm. að með því að heimila fyrirtækjum að velja erlendan gjaldmiðil til notkunar í bókhaldi má ætla að sveiflur í afkomu fyrirtækja milli ára minnki og geti þannig aukið áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum fyrirtækjum og búið til umhverfi sem gerir fjölþjóðlegum fyrirtækjum kleift að hafa meginstarfsstöð hérlendis. Meginreglan um færslu bókhalds hlýtur hins vegar að vera sú, eins og verið hefur, að bókhaldið sé fært í okkar gjaldmiðli. Í langflestum fyrirtækjum er engin þörf fyrir annað. Viðskipti innan lands fara fram í íslenskum krónum og afkoma fyrirtækjanna er mæld í íslenskum krónum. Hins vegar er rétt að kanna vel hvort ekki sé rétt að koma til móts við þau fyrirtæki sem telja sér hag í því vegna viðskipta erlendis og heimila þeim að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli. Ýmsar nágrannaþjóðir okkar hafa opnað fyrir slíkar heimildir. Skoða þarf mjög vel hvaða skilyrði þarf að setja áður en heimildin yrði veitt. Væntanlega þarf að setja skilyrði um umsvif viðskipta og starfsemi erlendis, hvort viðkomandi fyrirtæki er með dótturfyrirtæki erlendis eða er dótturfyrirtæki erlends aðila. Fleiri skilyrði þarf hugsanlega að setja.

Verði fyrirtækjum veitt heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga sína í erlendum gjaldmiðli þarf einnig að taka afstöðu til þess hvernig ákvarða skuli skattstofna, álagningu og uppgjör skatta og aðrar skyldubundnar upplýsingar til skattyfirvalda. Ef skattauppgjör á sér stað í erlendum gjaldmiðli þarf jafnframt að taka afstöðu til þess hvort heimila eigi greiðslu skatta og opinberra gjalda í erlendri mynt. Ljóst er að gengisáhætta verður til við slíkt fyrirkomulag. Þá kallar uppgjör í erlendum gjaldmiðli væntanlega á brottfall verðbreytingarfærslunnar og endurmat eigna eins og við ræddum hér áðan.

Danmörk, Svíþjóð og Bretland sem eru utan Myntbandalags Evrópu hafa breytt löggjöf um reikningshald í þá átt að heimila notkun evrunnar eða annarra erlendra gjaldmiðla, svo og Noregur sem er utan ESB. Þetta mál er til skoðunar í nefnd sem ég hef skipað til að endurskoða lög um ársreikninga eins og ég gat um. Gera má ráð fyrir að endanlegar tillögur frá henni liggi fyrir nú í haust.