Viðskiptabankar og sparisjóðir

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 13:49:14 (7526)

2001-05-11 13:49:14# 126. lþ. 120.3 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv. 71/2001, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er lagt til að heimila sparisjóðum að stofna séreignarsjóði sem munu fara með meginþungann af eignarhaldi í sparisjóðunum án þess að neinn eigi þá. Þeir stofnfjáreigendur sem á degi hlutafjárvæðingar eru stofnfjáreigendur munu um aldur og ævi ráða þessum sjóði jafnvel þótt þeir eigi ekkert í sparisjóðnum, hafi selt hlut sinn. Þarna fer saman að sá sem á og fer með stærstan hluta af valdinu á það ekki. Til hvers leiðir það eða getur leitt? Að sjálfsögðu til þess að hann reynir að ná sínum hagsmunum fram öðruvísi en með hámarksarðsemi. Þetta gengur þvert á það frv. sem menn voru að samþykkja áðan til að reyna að koma í veg fyrir samþjöppun á valdi. Ég greiði atkvæði gegn þessu.