Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:46:58 (7728)

2001-05-14 18:46:58# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög góð spurning. Stærsta verkalýðsfélag landsins, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, hefur farið inn á þá braut að gefa út raunverulega greidd laun. Þar á bæ eru launataxtar nánast ekki lengur til. Þar semur hver fyrir sig með hliðsjón af þeim launum sem greidd eru í þjóðfélaginu, markaðslaunum. Þetta geta sjómenn gert líka enda held ég að þeir geri það í reynd, að þau skip sem lélegast afla fái ekki sjómenn öðruvísi en með því að gera eitthvað sérstaklega fyrir þá.

Það er þekkt, að ég held hjá vélstjórum, að þar sem skortur er á starfsfólki eru menn að borga umfram það sem kjarasamningar segja. Ég held að menn ættu virkilega að skoða verkfallsréttinn í heild sinni og alveg sérstaklega þá reglu að menn skuli ekki vera ábyrgir fyrir því ofbeldi sem þeir valda þriðja aðila sem er ekki aðili að deilunni. Þeir bera enga ábyrgð. T.d. ef flugmenn fara í verkfall eða flugfélag setur verkbann þá eiga farþegarnir enga kröfu á neitt eins og í venjulegu tilfelli ef ferðin bregst. Þessu er líkt við jarðskjálfta og eldgos og annað eins en þetta er samt af manna völdum.