2001-05-20 01:25:58# 126. lþ. 131.94 fundur 586#B þingfrestun#, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 126. lþ.

[25:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Því er ekki að neita að oft hefur slegið í óvenjuharða brýnu í þingsölum í vetur og hefur stundum reynt nokkuð á samskiptin á Alþingi þegar það hefur gerst að mönnum innra með æsist skap og hiti en jafnan hefur okkur þó auðnast að láta þrútið geð þoka fyrir viti. Eftir stendur pólitískur ágreiningur um hitamál og þarf engum að koma á óvart að hann sé til staðar á þingi.

Fyrir hönd okkar alþingismanna og þingflokksformanna vil ég þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir röggsama fundarstjórn og fyrir samstarfið, stundum stormasamt, stundum óvænt, stundum skemmtilegt en umfram allt ágætt samstarf á þinginu.

Ég þakka forseta hlý orð í garð okkar þingmanna og vil fyrir okkar hönd færa forseta og fjölskyldu hans góðar kveðjur.

Þá vil ég þakka starfsfólki Alþingis fyrir dugnað og þolinmæði í okkar garð og hlýtt viðmót. Ég vil biðja þingmenn að taka undir góðar kveðjur til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsmanna Alþingis með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]