Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:50:24 (257)

2000-10-10 13:50:24# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt að taka undir með hæstv. samgrh. að innanlandsflugið hefur lengi verið í kreppu. Þess vegna hefði átt að vera hægt að grípa til aðgerða fyrr en gert var í stað þess að bíða eftir að allt væri komið í óefni. Það hefur komið fram opinberlega að í raun hefur Flugfélag Íslands staðið í samningaviðræðum við stjórnvöld í eitt og hálft ár og þess vegna vanhugsað að grípa svo seint til aðgerða.

Athyglisvert var að heyra þá yfirlýsingu hæstv. samgrh. að flugvallarskatturinn hefði engin áhrif haft til að veikja innanlandsflugið. Í ljósi þess að innanlandsflugið hefur lengi verið í kreppu má ljóst vera að auknar álögur gera ekki annað en að veikja það.

Herra forseti. Það er býsna athyglisvert að skoða þær aðvaranir sem bárust víða að þegar ákveðið var að leggja á hinn svokallaða flugmiðaskatt. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur sent frá yfirlýsingu. Í yfirlýsingu fastaráðs Alþjóðaflugmálastofnunar segir m.a., með leyfi forseta:

,, ... eru aðildarríkin sérstaklega hvött til varkárni í stefnumörkun sinni við álagningu leiðarflugsgjalda og að þau taki tillit til þeirra áhrifa sem slík gjaldtaka hafi á notendur, sérstaklega flugrekendur sem gætu þurft að hækka gjaldskrár með hliðsjón af auknum kostnaði við ný og hærri gjöld.``

En herra forseti, það voru fleiri sem vöruðu við. Í umsögn flugráðs, sem í sitja fimm aðilar, þar af tveir sérstaklega tilnefndir af hæstv. samgrh. og þar að auki tveir fulltrúar stjórnarflokkanna og m.a. framkvæmdastjóri þingflokks Framsfl., segir m.a, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þeirrar erfiðu afkomu á innanlandsflugi sem raun ber vitni um, þar sem sífellt fækkar flugrekendum og áfangastöðum er nauðsynlegt að sýna varkárni við ný gjöld og skoða þarf vel hvaða áhrif þau hafa á notendur.

Flugráð er því mótfallið því að setja leiðarflugsgjöld á við núverandi aðstæður og án samhengis við aðra gjaldtöku Flugmálastjórnar.``

Herra forseti. Sú staða sem innanlandsflugið og almenningssamgöngur í landinu eru í eru því miður skelfilegur vitnisburður um valdatíð Sjálfstfl. í samgrn. síðastliðin tíu ár.