Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:14:19 (281)

2000-10-10 15:14:19# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki að fullu ljóst hvort hv. þm. bjóst við svari við þessum pistli hans.

Auðvitað byggjast samskipti þjóða á alþjóðlegum vettvangi á samskiptum fullvalda og sjálfstæðra þjóða. Þar skiptir engu hvort um samskipti í Evrópu eða annars staðar á jörðinni er að ræða. Samskipti innan Evrópusambandsins byggjast á samskiptum fullvalda og sjálfstæðra þjóða.

Ég er sammála hv. flm. um að auðvitað eru Færeyingar að berjast fyrir sjálfstæði sínu til að hafa meiri áhrif á alþjóðasviðinu en sem hluti af Danmörku. Ég hef fullan skilning á því markmiði Færeyinga. En ég sé samt ekki alveg hvernig hv. þm. ætlar að tengja það þessari umræðu. Er hann kannski þeirrar skoðunar að það þýði að Færeyingar vilji ekki ganga í nánara samstarf við önnur Evrópuríki um leið og þeir verða sjálfstæðir?