Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:39:58 (293)

2000-10-10 15:39:58# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu var einnig flutt á síðasta þingi. Nú er hún endurflutt en með mun ítarlegri grg. en þá var. Það vekur athygli mína hve miklum breytingum umræðan um þessa tillögu hefur tekið og sérstaka athygli vekur hve heitt í hamsi hæstv. utanrrh. er og talsmönnum Samfylkingarinnar þegar Evrópumálin ber á góma.

Staðreyndin er vitanlega sú að tillagan verður ekki til í neinu tómarúmi. Við stöndum frammi fyrir spurningu sem margir telja áleitna, hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Til þeirrar spurningar erum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að taka afstöðu og við gerum það á markvissan hátt með ítarlegum rökstuðningi.

Við þessa umræðu hafa menn horft til þess sem er að gerast í Evrópu og hjá Evrópusambandinu. Það er ljóst að af hálfu þeirra afla sem eru sterkust innan sambandsins er stefnt að einu markmiði. Stefnt er að einu ríki, að skapa eitt ríki með einum landamærum, þar vísa ég til Schengen. Stefnt er að einum gjaldmiðli, þar vísa ég til evrunnar. Stefnt er að samræmdri efnahags- og peningapólitík, þar vísa ég til seðlabankans í Frankfurt. Stefnt er að einsleitri efnahagsstefnu, þar vísa ég til ákvarðana og yfirlýsinga, nú síðast frá Romano Prodi sem í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna í Danmörku lýsti því yfir að það skorti enn á að efnahagsstefnan í Evrópusambandinu væri nægilega samræmd og sagði hann að það skýrði að hluta til hversu veik evran væri.

Ekki er víst að þetta gangi allt eftir. En í þessa átt er stefnt, að þessu markmiði er stefnt af hálfu þeirra sem fara með ráðin í Evrópusambandinu og það deilir enginn um það að á undanförnum árum hefur dregið úr fullveldi aðildarríkja Evrópusambandsins. Ákvarðanir hafa verið teknar í þá átt, á leiðtogafundinum í Helsinki t.d., að rétt sé að draga úr neitunarvaldi aðildarríkja Evrópusambandsins og það deilir enginn um að þróunin hefur verið í þá átt.

Hins vegar er það alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrich að við getum ekki haft neina vissu fyrir því að þessi markmið gangi upp. Það eru miklar deilur um evruna. Við höfum dæmin, núna síðast frá Danmörku þar sem fellt var í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil. Deilt er um þetta í Svíþjóð, í Bretlandi og víðar. Og það er einnig rétt sem kom fram í hans máli að með stækkun Evrópusambandsins verða til ýmsar mótsagnir sem erfitt er að sjá á hvern hátt sambandið leysir.

Á sama hátt og menn eru að samræma efnahagsstefnuna, peningapólitíkina og setja hana undir einn miðstýrðan banka sem hefði refsivald gagnvart aðildarríkjum sambandsins þá eru menn að færa út kvíarnar og hleypa inn í Evrópusambandið ríkjum sem búa við annan efnahag en þau ríki sem fyrir eru og menn velta því fyrir sér hvort sú stefna sem rekin hefur verið gangi upp. Og það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrich að menn eru farnir að tala á ólíkum nótum núna síðustu mánuðina. Það er farið að tala um sveigjanlega Evrópu, að hugsanlega verði að hægja á samræmingarferlinu.

En það er samt sem áður meginmálið að stefnt er að samræmdri efnahagsstefnu. Frammi fyrir þessu standa íslenskir stjórnmálaflokkar. Hvað vilja þeir gera? Vilja þeir sækja um aðild að Evrópusambandinu eða telja þeir heppilegt að Íslendingar fari aðrar leiðir? Við erum á því máli.

[15:45]

Við höfum sagst vilja þróa samskiptin við Evrópusambandsríkin í átt til tvíhliða samninga. Ég er einn af þeim sem hef verið mjög gagnrýninn á EES-samkomulagið. Ég tel það ekki hafa orðið okkur til góðs í þeim mæli sem margir telja. Ég er sammála því að það hafi fært okkur ýmiss konar tollaávinning en hins vegar hefur dregið úr fullveldi okkar. Við innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum gagnrýnt mjög margt sem gerast hefur, er að gerast og kemur til með að gerast vegna tilskipana frá Evrópu. Ég vísa þar t.d. í raforkugeirann þar sem okkur er gert, nánast samkvæmt tilskipun, að taka upp breytt fyrirkomulag á því sviði. Við vorum eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem hafði uppi andóf þegar samþykkt var þáltill. þar sem Alþingi lagði í grófum dráttum blessun sína yfir þetta.

En við höfum jafnframt sagt að við teljum ekki rétt að segja samningnum upp við þessar aðstæður. Við erum í allt annarri stöðu núna, eftir að samningurinn hefur verið gerður, en á sínum tíma þegar Íslendingar gerðu EES-samkomulagið. Við viljum hins vegar reyna að þróa þennan samning í átt til tvíhliða samkomulags við Evrópusambandið.

Sjálfstfl. hefur skýra stefnu, við fengum hana staðfesta hér áðan í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrich. En Framsfl. og Samfylkingin hafa hins vegar allóljósa stefnu. Ég held að það sé alveg ljóst að ráðandi aðilar innan beggja þessara flokka vilja að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu. En um það er ágreiningur innan Framsfl. og Samfylkingarinnar og þess vegna er þetta sett í þennan búning. Framsfl. hefur kallað til 50 manna nefnd, þverpólitíska nefnd, sem á að reyna að komast að niðurstöðu um stefnu flokksins. Hins vegar er ljóst að formaður flokksins og ýmsir sem standa honum nærri eru mjög eindregið á því að við eigum að sækja um aðild eða þannig ræð ég í þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið. Sama er innan Samfylkingarinnar.

Mér finnst mikilvægt að menn tali hreint út og tali um þessa hluti á opinn og heiðarlegan hátt. Það er markmiðið með þeirri þáltill. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð stendur hér að.