Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 18:29:25 (340)

2000-10-10 18:29:25# 126. lþ. 6.5 fundur 7. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það styttist nú óðum í tíu ára afmæli viðskiptabannsins á Írak en bannið var sett á landið með þeim formerkjum að koma ætti einræðisherranum Saddam Hussein frá völdum. Hann situr enn sem fastast á valdastóli, reisir styttur og hallir sjálfum sér til dýrðar og gerir vel við herinn í landinu.

En það eru aðrir sem líða fyrir þessar refsiaðgerðir sem ekki eiga sinn líka í sögu viðskiptaþvingana. Nú þegar hafa tæplega 1,5 milljónir manna látið lífið í Írak vegna skorts á mat, lyfjum og læknishjálp, þar af er þriðjungurinn börn. Menn hafa deilt um þessar tölur en það deilir enginn um að mörg hundruð þúsund manns hafi látið lífið af völdum þessara aðgerða. Það hafa verið settar fram tölur á bilinu 0,5--1,5 milljónir. Því er haldið fram af hálfu þeirra sem rannsakað hafa þessi mál á vegum Sameinuðu þjóðanna að 10 milljónir Íraka, tæplega helmingur þjóðarinnar, þjáist af vannæringu og að þriðja hvert barn í landinu sé vannært og undir eðlilegri líkamsþyngd.

[18:30]

En Írakar glíma ekki aðeins við skort, einangrun og alræðisstjórn í krafti hervalds. Frá lokum Flóabardaga hafa flugvélar sigurvegaranna farið um 280 þúsund ferðir inn yfir Írak og eru loftárásir orðnar hluti af hversdagslegu lífi margra Íraka sem kvarta undan því að sprengjum sé varpað á borgaraleg skotmörk en sigurvegararnir segja Íraka geta sjálfum sér um kennt, þeir setji upp loftvarnarbyssur innan um íbúðarhverfi.

Í grein sem birtist í bandaríska stórblaðinu Herald Tribune helgina 17.--18. júní er talað um þetta gleymda stríð, stríð sem sé heiminum gleymt, og þar kemur fram og vitnað er í heimildir frá Pentagon að farið sé í sprengjuárásarferð á þriggja daga fresti að meðaltali. Vitnað er í heimildir frá Pentagon.

Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hafa helstu aðilar sem hafa borið ábyrgð á hjálparstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak sagt af sér, Denis Halliday, Hans von Sponeck, Jutta Burghart og í nýlegri skýrslu sem samin var að frumkvæði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að viðskipta- og samskiptabannið á Írak gangi m.a. í berhögg við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, barnasáttmálann og Genfarsáttmálann frá 1949 og viðaukana frá 1977.

Hæstv. utanrrh. sagði áðan, ef ég heyrði það rétt, að olía fyrir mat væri samkvæmt sinni vitneskju eitt mesta mannúðarprógramm sem hrint hefði verið fram á vegum Sameinuðu þjóðanna. Skildi ég það rétt? (Gripið fram í.) Ég skildi það rétt, já. Þetta mikla mannúðarprógramm sem hæstv. utanrrh. vill kalla svo hefur verið gagnrýnt harðlega af öllum þessum aðilum og orðið þess valdandi að þeir sögðu af sér störfum. Staðreyndin er sú að olía fyrir mat hefur lengst af verið með þeim hætti að Írökum hefur verið heimilað að selja fyrir fjóra milljarða dollara á ári hverju. Þegar best lét seldu þeir fyrir um 20 milljarða á ári. Samkvæmt útreikningum starfsmanna Sameinuðu þjóðanna þá ætluðu þeir að til að framkvæma allra nauðsynlegustu lagfæringar á öllu stoðkerfi landsins eftir Flóabardaga hefði þurft 22 milljarða dollara. En þeir máttu selja fyrir fjóra milljarða dollara á ári hverju.

Af því fór þriðjungurinn í stríðsskaðabætur til Kúveit og enn var tekið af þessari upphæð til að fjármagna starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Írak. Eftir stóðu 1,8 milljarðar dollara til þess að kaupa mat og lyf. Nú hefur verið gerð úttekt á afleiðingum þessa þau ár sem liðin eru síðan þessu vatt fram. Þótt breyting hafi verið gerð á þessu prógrammi núna, eins og hæstv. utanrrh. vitnaði til, er viðskiptabannið enn við lýði. Og í þessari skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er gerð úttekt á þessum afleiðingum.

Nú ætla ég að leyfa mér að beina spurningu til hæstv. utanrrh.: Hefur hann kynnt sér þessa skýrslu? Hefur hann lesið þessa skýrslu? Ég trúi því ekki að hann hafi gert það vegna þess að miðað við þær yfirlýsingar sem hann gaf hér áðan getur ekki verið að hann hafi kynnt sér efni þessarar skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og síðan látið fara frá sér þau ummæli sem raun ber vitni nú áðan.

Í skýrslunni er staðhæft að hér sé yfirgripsmesta viðskiptabann sem um getur og þar segir að það hafi orðið þess valdandi að ekki hafi verið unnt að endurreisa allt stoðkerfi samfélagsins. En alvarlegast er, segir þar, það neyðarástand sem hefur skapast í heilbrigðiskerfinu og síðan er farið yfir það mjög rækilega. Þar segir að 30% sjúkrarúma séu ekki nýtt vegna þess að peningar eru ekki fyrir hendi og þetta er rakið til viðskiptabannsins. Þar segir að 75% af öllum tækjakosti á sjúkrahúsunum sé óvirkur, ónothæfur, að ekki hafi verið hægt að endurnýja hann. Þar segir að 25%, fjórðungurinn, af öllum heilsugæslustöðvum í landinu sé lokaður, að ekki hafi verið hægt að koma þeim í gang aftur. Þar segir að til að endurreisa raforkukerfið eitt þyrfti sjö milljarða dollara.

Síðan leyfir hæstv. utanrrh. sér að koma hér fram og tala um mesta mannúðarstarf sem sögur fara af á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og kennt er við mat fyrir olíu. Ég hef ekki tíma til að vitna hér nánar í það sem stendur í þessari skýrslu, en hér er t.d. vitnað í ummæli frá Denis Halliday sem var yfirmaður mannúðarstarfs á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hann segir og það er staðhæft í skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna: ,,Við erum að eyðileggja heilt samfélag.``

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur tekið undir þetta líka.

Síðan kemur hæstv. utanrrh. Íslands og leyfir sér að tala á þann hátt sem hann gerir (Forseti hringir.) hér. Ég óska eftir nánari skýringum. Hefur hann lesið þessa skýrslu?