Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 14:37:17 (471)

2000-10-12 14:37:17# 126. lþ. 9.6 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir það frv. sem hún hefur haft framsögu um.

Eins og hún gat um hefur íslensk þjóð ákveðin tengsl við sjávarútveg og sjávarútvegsiðnað. Þetta helgast af því að hún lifði náttúrlega á þessum atvinnugreinum í gegnum aldirnar. Íslensk þjóð hefur einnig háð harðvítug landhelgisstríð til að ná yfirráðum yfir þessari auðlind þannig að auðlindin og aðgangur að henni hefur ákveðinn sess í hugum Íslendinga.

Til að gæta þess að auðlindin sé í eigu ,,þjóðarinnar`` hafa menn sett alls konar boð og reglur og bönn. Ég hygg að í engri atvinnugrein í heiminum sé eins mikið af lögum og reglum og boðum og bönnum og í íslenskum sjávarútvegi enda hafa sjómenn sagt mér, jafnvel trillukarlar, að til að stunda sæmilega útgerð þurfi menn að kunna lögfræði, það sé grundvallaratriði. Þeir þurfi ekkert að kunna frekar á veiðarfæri og svoleiðis lagað en það er lögfræðin sem þarf að vera í lagi.

Þessi atvinnugrein er ekki einu sinni skipulögð með framkvæmdarvaldinu heldur er hún skipulögð beint af hinu háa Alþingi með lögum og reglum. Ég hef reynt að skilja öll þessi lög og það tekst akkúrat meðan ég er að lesa þau. Svo þegar ég er búinn að lesa þau og legg þau frá mér nær minni mitt ekki til þess að ná yfir allt það sem stendur þar auk þess sem framkvæmdin er ekki endilega nákvæmlega eins og maður les út úr lögunum því þau eru hver loðin.

Inni í þessum lögum er t.d. takmörkun á framsali kvóta þó að hægt sé að færa fyrir því mjög sterk rök að eftir því sem framsal kvóta er frjálsara þeim mun meiri er arðsemi atvinnugreinarinnar og mest væri hún ef framsal kvóta væri algjörlega frjálst og óbundið við skip eða persónur. Þá yrði arðsemi atvinnugreinarinnar mest.

Inni í þessu er líka bann við fjárfestingu útlendinga, þ.e. fólks sem hefur ekki íslenskt vegabréf. Ég hef getið um það hversu ankannaleg þessi skilgreining er. Eftir nýjustu lögum eru sífellt fleiri þegnar þessarar jarðar að fá íslenskt vegabréf vegna þess að þeir öðlast íslenskt vegabréf ef annað hvort foreldrið er íslenskt og mikið er um blönduð hjónabönd. Það er alls konar fólk úti um allan heim sem hefur rétt til að veiða á Íslandi og hefur ekki nokkur önnur tengsl við Ísland nema að mega veiða hérna af því að þeir hafa íslenskt vegabréf. Svo eru náttúrlega margir útlendingar, sem hafa búið á Íslandi í fjölda ára og vita allt um íslenskt atvinnulíf og tala góða íslensku og allt slíkt sem mega ekki veiða. Þeir mega ekki einu sinni sjóða niður fisk.

Sem sagt, allar þessar reglur og lög takmarka arðinn af greininni og minnka hann. Þrátt fyrir það hefur sjávarútvegurinn undanfarin ár verið með mjög góða arðsemi sem sýnir okkur hvað auðlindin er feiknarlega sterk að hún skuli geta staðið undir öllum þessum takmörkunum og gefið samt arð. Reyndar hefur hann minnkað undanfarið eins og hefur komið fram í umræðunni. Það skyldi ekki vera vegna þess að menn hafa verið að herða reglurnar um framsalið?

Það er dálítið skemmtilegt að koma til útlendinga og fá þá til að fjárfesta á Íslandi. Það sem þeir gera náttúrlega fyrst er að líta á útflutning Íslendinga, hver er uppistaðan í atvinnulífinu. Þeir sjá að stór hluti af útflutningi Íslendinga er sjávarútvegur. Aha, þarna ætlum við að fjárfesta. Nei, því miður. Bannað.

Svo fara þeir og líta á t.d. orkuiðnaðinn sem er afskaplega stór. Skemmtilegt væri að fjárfesta í þessari auðlind. Nei, það er bannað. Til skamms tíma var ekkert sem menn gátu fjárfest í. Það var varla nokkuð. Það voru tryggingafélög og svona eitt og annað. Ekki bankar, ekki neitt. Útlendingarnar fóru náttúrlega bara eitthvert annað, til einhvers annars lands til að fjárfesta. Fyrir utan hvað Ísland er lítið og það kostar jafnmikið að setja sig inn í íslenskt atvinnulíf og að setja sig inn í finnskt atvinnulíf og miklu minni möguleikar. Það er því ekkert skrýtið þó að það séu litlar fjárfestingar útlendinga hér á landi, nema náttúrlega í stóriðjunni.

Það að við séum að fjárfesta einhliða í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum en þeir megi ekki fjárfesta hérna hlýtur fyrr eða síðar að kalla á það, ef þeir hafa áhuga á því yfirleitt, að þeir krefjist jafnréttis. Við viljum fá að fjárfesta hjá ykkur, segja t.d. Þjóðverjar, eins og þið hafið keypt upp allan þýskan sjávarútveg. En þeir hafa sennilega lítinn áhuga á þessu, þetta er svo lítill hluti af atvinnustarfsemi þeirra.

Hér hefur verið nefnt að erlendri fjárfestingu fylgi ekki þekking af því að Íslendingar kunni svo óskaplega vel að reka sjávarútveg. Það er rétt, þeir vita allt um tæknina við að veiða fisk. Þeir kunna á fiskisjár og allt þetta sem felst í því. En þeir kunna ekki stjórnun. Ég held að íslenskum fyrirtækjum sé yfirleitt illa stjórnað miðað við það sem best gerist og betri stjórnun gæti komið inn með erlendri fjárfestingu. (Gripið fram í: Þýskur agi.) Eða amerísk þekking á því hvernig á að virkja fólk í því með kauprétti og öðru slíku, virkja starfsmennina þannig að það sé gaman að vinna og hagur starfsmannanna fari saman við hag fyrirtækisins sem er hið besta mál fyrir alla.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom inn á það, sem ég hef sjálfsagt nefnt mörgum sinnum áður, að hægt er að hafa áhrif á annan hátt en með beinni eignaraðild. Langsamlega best er að lána einhverjum ræfli mikla peninga sem hann getur aldrei borgað til baka og láta hann kaupa kvóta fyrir það og setja honum svo einhver afarskilyrði þannig að hann verði að hlíta í einu og öllu því sem maður segir. Þannig komast menn náttúrlega að sjálfsögðu inn í auðlindina á miklu betri máta en með því að kaupa hlutabréf í einhverju fyrirtæki. Þetta hafa menn verið að gera í stórum stíl. Íslendingar vakna ekki upp við það þegar sjávarútvegurinn skuldar 150 milljarða eða meira. Meira og minna í útlöndum. Hvað mundi gerast ef hann gæti ekki borgað þetta? Hvað mundi gerast? Ég sé engan mun á þeirri stöðu og því að útlendingar ættu beinan hlut í sjávarútveginum.

Í rauninni eru á pappírunum mjög mikil áhrif útlendinga í sjávarútvegi á Íslandi, á auðlindinni, ef þeir hefðu á því áhuga, einhvern annan en bara að græða og fá vexti.

Menn hafa rætt um það eftir að auðlindanefndin kom til sögunnar að það þurfi að setja álögur á kvótann, annaðhvort skattaálögur eða bjóða upp hluta af honum á ári hverju. Þetta mun að sjálfsögðu minnka arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja, hugsanlega lækka verð þeirra og það sem þarf að koma á móti er að slaka á reglunum. Fyrst þjóðin er að ná tangarhaldi á auðlindinni á þennan hátt með því að fá skatta eða uppboð, sumir setja jafnaðarmerki milli ríkis og þjóðar, sem ég geri ekki, þá má slaka á reglunum hinum megin.

[14:45]

Um leið og þjóðin nær tangarhaldi á auðlindinni með uppboðum eða skattlagningu, þá má slaka á. Það mundi þýða að verðmæti fyrirtækjanna hækkaði, t.d. að útlendingar megi fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi þýðir að það eru fleiri sem mega bjóða í og geta boðið í hlutabréfin. Það þýðir ekki nema eitt, verðið hækkar. Ekki lækkar það. Um leið og menn taka kvótann frá útgerðinni ættu menn að slaka á reglunum. Frv. gengur út á þetta.

Ég hef furðað mig á því á undanförnum árum hve sjávarútvegsfyrirtækjunum virðist illa stjórnað. Ef maður lítur á arðsemi eða hagnað fyrirtækjanna á hvert kíló sem þau mega veiða eru þetta ekki nema tíu, tuttugu krónur á kíló á sama tíma og maður getur selt sama kíló eða veiðiréttinn á hundrað kall. Ég skil ekkert í mönnunum að leigja ekki allan kvótann frá sér. Ég skil ekkert í forráðamönnum Granda að hætta ekki rekstri og leigja allan kvótann. Þeir fimmfalda hagnaðinn með því. Af hverju gera þeir þetta ekki? Ég hef ekki skilið það og það sem ég hef alltaf verið að bíða eftir er illvíg yfirtaka, að einhver kaupi öll hlutabréf í Granda og leggi fyrirtækið niður. Það margborgar sig.

En þá kemur nefnilega inn í þetta dálítið merkilegur hlutur sem er eignarhald lífeyrissjóðanna á sjávarútvegsfyrirtækjunum og annarra aðila sem mega ekki vamm sitt vita, sem mega ekki græða hvað sem það kostar. Það hindrar sennilega að menn hafi farið í illvíga yfirtöku eða rekið fyrirtækið skynsamlega. Hvaða áhrif hefði slík illvíg yfirtaka? Hún mundi þýða það, ef eitthvert stórt fyrirtæki eins og Samherji yrði tekið yfir, að menn mundu demba öllum kvótanum á markað. Það mundi þýða að markaðsverðið, sem er núna yfir hundrað krónur á kíló fyrir að fá að veiða eitt kíló af þorski, lækkaði niður í sextíu, fimmtíu, fjörutíu kall. Það mundi aftur þýða að nýir menn gætu byrjað. Illvíg yfirtaka er ekki endilega slæm. Hún mundi þýða að smábátasjómenn á Vestfjörðum gætu allt í einu farið að keppa við sjávarútvegsfyrirtækin ef þeir þyrftu að borga þrjátíu krónur á kíló. Þeir yrðu hoppandi glaðir. Þeir gætu gert út alla daga ársins þegar gefur. Ekki bara tuttugu daga eins og nú er. Illvíg yfirtaka er ekkert endilega slæm. Hún mundi þýða markaðssetningu á kvótanum. En þetta má ekki. Þetta má ekki af því það er ljótt að kaupa sjávarútvegsfyrirtækin til að leggja þau niður. Svona er þetta allt skrítið vegna þess hvernig allt er skipulagt með reglum og boðum og bönnum.

Það ætti að friða þjóðina að hlutur sjávarútvegs í landsframleiðslu og í gjaldeyristekjum fer hratt minnkandi. Við erum að byggja álver, við sjáum mjög blómleg íslensk þekkingarfyrirtæki, Íslenska erfðagreiningu o.fl., sem eiga eftir að skila miklu meiri skerf í þjóðarkökuna. Sjávarútvegurinn er alltaf að minnka í vægi og þjóðin þarf ekki lengur að hafa þvílíkar áhyggjur af sjávarútveginum sem hann væri eina fjöregg þjóðarinnar. Nú er nefnilega komin ný auðlind sem er betri stjórnun og meiri þekking. Sú auðlind getur nýst ein og sér í hugbúnaðargeiranum og í þekkingariðnaðinum. Menn gætu þess vegna farið að slaka á klónni.

En ég endurtek, herra forseti, að þetta frv. er ósköp lítið skref, en í rétta átt og ég styð það.