Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:14:57 (498)

2000-10-12 16:14:57# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í þróun tryggingakerfisins þurfa menn að gæta samræmis og almannatryggingakerfið eða velferðarkerfið í heild sinni er samspil úr mörgum þáttum. Þ.e. Tryggingastofnun, skattkerfinu, félagshjálp sveitarfélaganna o.s.frv. Við Íslendingar erum með óvenju fjölskrúðugt velferðarkerfi. Mér finnst að inni í því hafi umræðan um fjölskylduna ekki verið tekin upp. Á að taka tillit til fjölskyldunnar eða ekki? Ég sem einstaklingshyggjumaður vil það helst ekki en þá bý ég líka til nýtt óréttlæti, ef ekki er tekið tillit til fjölskyldunnar.

[16:15]

Ég nefni sem dæmi skattalögin með persónuafsláttinn. Þar er tekið tillit til fjölskyldunnar og meira að segja tekna fjölskyldunnar, þ.e. að það megi millifæra persónuafslátt í auknum mæli. Hv. Alþingi er búið að samþykkja það að auka flutning persónuafsláttar úr 80% í 100%. Þar er tekið tillit til fjölskyldunnar.

Ég nefni einstæða foreldra og kjör þeirra. Þeir fá hærri barnalífeyri. Þeir fá hærri bætur mjög víða í kerfinu vegna þess að þeir búa einir. Þar er vissulega tekið tillit til fjölskyldunnar. Þeir sem búa einir með börn fá aðrar og betri bætur en þeir sem búa með maka sínum. Þar er tekið tillit til fjölskyldunnar.

Allar þessar bætur gera það að verkum, og ég hef reiknað það út fyrir fólk, að fólk getur grætt allt að hálfri milljón á ári með því að skilja og gerast einstæðir foreldrar báðir eða annaðhvort þeirra. Það mismunandi eftir tekjum. Þarna er verið að gera upp á milli fjölskylduforma, þ.e. hvort fólk er gift eða ekki þannig að það er tekið tillit til fjölskyldunnar.

Ég hef nefnt heimilisuppbótina og sérstöku heimilisuppbótina. Þar er líka tekið tillit til fjölskyldu.

Með makalífeyri lífeyrissjóða er verið að veita mökum lífeyri vegna þess að þeir eru giftir. Þar er tekið tillit til fjölskyldunnar.

Húsaleigubætur eru þannig uppbyggðar að það eru einar bætur á hverja fjölskyldu. Það er alveg sama hvort þar er um að ræða einn eða tvo fullorðna, það er jafnmikið. Þar er ekkert tillit tekið til fjölskyldunnar. Fjölskyldan í heild sinni fær einn lífeyri, hvort sem það er einn maður eða fleiri. Mér finnst því þurfa að taka upp alla þessa umræðu um fjölskyldu eða ekki fjölskyldu og það þarf að ræða hvort við ætlum að hafa fjölskylduna sem samtryggingarkerfi eins og hún hefur verið og eins og hún er. Ég þekki engin hjón sem halda fjárhag sínum aðskildum. Það er yfirleitt alltaf þannig að þetta er allt sett í einn sjóð hvort sem annar makinn er með 400 þús. kall eða ekki og svo er eytt úr honum sameiginlega. Þannig þekki ég það. Það er ekki til í dæminu að menn kvitti fyrir morgunverðinn og borgi fyrir hann og að sá sem keypti í bakaríinu fái greitt úr einhverjum sjóði frá hinum. Ég þekki það ekki. Þetta er því sameiginlegur sjóður. Hvers vegna ætla menn ekki að taka tillit til þess?

Það er ljóst að öryrkinn sem hefur sameiginlegan sjóð með hátekjumanni hefur það betra en öryrkinn sem hefur sameiginlegan sjóð einhverjum sem er með lágar tekjur. Mér finnst því að menn þurfi að taka þetta með inn í myndina. Ætla menn að fara algjöran veg einstaklingshyggjunnar og láta hvern mann fá sínar bætur? Þá lenda menn aftur í öðrum vanda sem felst í því að ef við erum með tvo öyrkja sem búa saman þá hafa þeir hag af því að búa í einni íbúð. Það er ódýrara en að vera í tveimur íbúðum. Þeir hafa hag af því að elda saman. Það er ódýrara en að elda fyrir einn sitt í hvoru lagi. Það er mikill hagur af því að búa í sambýli við annan. Það er ódýrara fyrir hvern einstakling að búa með öðrum en ef viðkomandi byggju hvor í sinni íbúðinni. Tekið er tillit til þessa í kerfinu einmitt með heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót sem tekin var upp að mig minnir 1970 að frumkvæði Eðvarðs Sigurðssonar.

Við erum því að taka tillit til fjölskyldunnar út um allt í kerfinu, í millifæranlegum persónuafslætti, hjá einstæðum foreldrum o.s.frv. Þess vegna kemur þetta frv. til laga dálítið undarlega út þar sem allt í einu á ekki að taka tillit til fölskyldunnar. Ég spyr: Er þetta stefnubreyting? Ætlum við alls staðar að hætta að taka tillit til fjölskyldunnar? Þá vil ég að það komi skýrt fram. Ætlum við að hætta að millifæra persónuafslátt í skattkerfinu? Ætlum við að hætta að umbuna einstæðum foreldrum? Ætlum við að hætta með heimilisuppbót og fjöldann allan af öðrum atriðum þar sem tekið er tillit til fjölskyldunnar? Þetta er ekkert smámál og menn geta ekki skautað svo yfirborðskennt yfir það að vísa til einhvers réttlætis í einstökum tilfellum. Þetta er almenn regla og menn þurfa að þróa allt lífeyriskerfið í heild sinni eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi. Það þýðir ekkert að líta á einstaka liði endalaust og stöðugt og benda á þá.

Til dæmis borga lífeyrissjóðirnir um helming af öllum lífeyri í landinu. Í allri umræðunni er sjaldan talað um það og svo segja menn að sumt fólk sé án réttinda úr lífeyrissjóði, hafi ekki borgað til lífeyrisjóða, hafa skotið sér undan því að borga til lífeyrissjóða, sumir mjög meðvitað og í samkomulagi við sinn atvinnurekanda. Og þá kemur upp vandamálið með hina sem greiddu alla tíð í lífeyrissjóð, 10% af launum í 30 ár. Það eru þrenn árslaun sem menn eru búnir að leggja fyrir í lífeyrissjóð og vilja njóta þess. Ef hinir sem ekki borga í lífeyrissjóð eiga að vera með sömu stöðu þá er ég hræddur um að hvíni í einhvers staðar. Ég hef heyrt í mjög mörgum sjóðfélögum lífeyrissjóðanna sem hafa borgað í lífeyrissjóði í 20--30 ár, að þeir eru ekkert mjög hressir með að þeir eru með nánast sömu stöðu þegar kemur að töku lífeyris vegna allra skerðinga sem eru í kerfinu. Þeir njóta þess ekki að hafa séð af þremur árslaunum inn í lífeyrissjóðakerfið og þetta á sérstaklega við um opinbera starfsmenn. Öll þessi mál eru því afskaplega viðkvæm og erfið viðureignar og það þýðir ekki að skauta svo létt yfir það að taka einn þátt út, skoða eina skúffu í kommóðunni. Við verðum að líta á alla kommóðuna. Við verðum að líta á bætur úr skaðabótalögum og barnabætur, úr skattkerfinu, frá félagsmálastofnun, frá lífeyrissjóðunum o.s.frv. Bara Tryggingastofnun ein borgar um 150 tegundir bóta. Sveitarfélögin eru með fullt af bótum. Kópavogsbær veitir t.d. öryrkjum og ellilífeyrisþegum ókeypis mat í hádeginu. Það kemur hvergi fram. Til er mýgrútur af reglum og bótum hér og þar og það sem er kannski galli við þetta kerfi er að þeir sem eiga að njóta vita oft ekki af bótunum sínum og sumir ráðgjafar hafa sagt mér að helmingurinn af tíma þeirra eða meira fari í að benda fólki á hvaðan það geti átt rétt í kerfinu. Það er orðið svo flókið.

Svo tala menn eins og hér áðan um að ungt fólk sem lendir í slysum fái ekki lífeyri úr lífeyrissjóðnum en gleyma annaðhvort meðvitað eða ómeðvitað skaðabótalögunum. Þau veita nú ekki lítinn rétt, 9--13 millj. Svona er umræðan á öllum stigum. Hún er yfirborðskennd. Menn verða að fara að skoða grundvallaratriðin í kerfinu eins og t.d. hvort taka eigi tillit til fjölskyldu eða ekki og þá vil ég að það sé gert alls staðar. Ekki bara í einstaka málum. Menn mega ekki ræða um kjör aldraðra og öryrkja öðruvísi en taka alla þætti inn í, lífeyrissjóðina líka þar sem fólk á að hafa greitt í 20 ár a.m.k. Það er samkvæmt lögum. Þessi umræða hefur því verið mjög yfirborðskennd og ekki málefnaleg. Ég vil að menn fari að skoða alla þættina, alla kommóðuna, ekki bara einstaka skúffur í hvert og eitt einasta skipti og líta á hvernig þetta spilar allt saman. Ég hef t.d. bent á Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem einstæð móðir með tvö börn getur fengið 198 þús. kr. á mánuði til ráðstöfunar úr mörgum þáttum, mörgum liðum, húsaleigubótum, barnabótum, meðlagi o.s.frv. og borgar enga skatta. Þetta er dæmi sem er reyndar útreiknað en getur verið raunverulegt. Við verðum að fara að líta á alla þættina en ekki líta alltaf á einstaka skúffur með slagorðum og upphrópunum. Þetta frv. sem við ræðum hér um er góðra gjalda vert og það er alveg rökrétt í sjálfu sér í þeirri skúffu, einmitt í þeirri skúffu. En það þarf að líta á allar skúffurnar þegar við þessu er hreyft annars er þróun velferðarkerfisins ekki rökrétt og hún verður að vera rökrétt. Það sem mér finnst fyrst og fremst er að það þarf að einfalda kerfið þannig að fólkið geti skilið það og viti hvar það á rétt.