Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:25:36 (499)

2000-10-12 16:25:36# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vísa því til föðurhúsanna að umræðan hafi verið ómálefnaleg. Hún hefur verið mjög málefnaleg. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það eigi að einfalda kerfið. En varðandi allt þetta tal um fjölskylduna hjá hv. þm. þá vil ég benda honum á að sú framkvæmd almannatrygginganna að tengja tekjutrygginguna við laun maka er atlaga að fjölskyldunni og fjöldi lífeyrisþega hefur lent í því að skilja eða leggur ekki í að ganga í hjónaband vegna þess að innbyrðis eru miklu lægri greiðslur fyrir þá sem eru í hjónabandi eða sambúð í kerfinu þó ekki sé verið að tengja við tekjur maka. Það kemur mér á óvart hvernig hv. þm. talar alltaf í umræðunni um þessi mál. Ég er farin að trúa því að hv. þm. sé eini Íslendingurinn sem ekki vill byggja upp öryggisnet, sem ekki vill hafa velferðarþjónustu til þess að tryggja að fólk verði ekki undir í samfélaginu og fólk þurfi ekki að búa við fátækt. Ég furða mig á tali eins og kom fram hjá hv. þm., að finnast það eðlilegt að öryrkjar þurfi að sækja til sveitarfélagsins ókeypis matargjafir, þ.e. í Kópavogi. Eigum við ekki að sjá til þess að lífeyrisþegar sem ekki geta séð sér farborða fái þó það háar greiðslur úr tryggingakerfinu, þær þurfa ekki að vera svo miklu hærri en í dag, að þeir geti séð sér farborða og þurfi ekki að vera að sækja til sveitarfélaganna ókeypis matargjafir? Mér finnst þetta ótrúlegur málflutningur hjá hv. þm., herra forseti.