Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:58:30 (509)

2000-10-12 16:58:30# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. til laga sem er til umræðu um breytingu á lögum um almannatryggingar og felur í sér að tekjutryggingar lífeyrisþega við tekjur maka verði afnumdar. Mér finnst vera hér á ferðinni mikið réttlætismál sem ég styð mjög eindregið og hef talað fyrir tillögum í þessa veru um langt skeið. Ég kann hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur og samflutningsmönnum hennar þakkir fyrir að setja frv. fram. Mér finnst mjög brýnt að bæta stöðu lífeyrisþega almennt. Ef ég ætti að forgangsraða í því efni mundi ég horfa fyrst til öryrkja, ég tel það grundvallaratriði og mannréttindi að staða þeirra sé bætt verulega og það strax.

[17:00]

Staðreyndin er sú að öryrki getur mest fengið í tekjur frá tryggingakerfinu 70 þús. kr. á mánuði eða þar um bil. Þetta er tekjutrygging, grunnlífeyrir, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót. Ef öryrkinn hins vegar fer í sambúð, giftist eða er í sambúð með annarri manneskju þá hrapar hann úr þessum 70 þús. kr. á mánuði niður í rúmar 48 þús. kr. á mánuði og gengur þetta frv. út á það að koma í veg fyrir að tekjuhrapið verði enn þá meira. Vegna þess að ef makinn er yfir tilteknu marki í launum, á milli 130 og 140 þús. kr., ef ég man það rétt --- ég hef nú ekki flett því upp nýlega --- þá skerðast þessar 48 þús. kr. rúmar og geta endað í um 17--18 þús. kr. á mánuði, sem eru ekki einu sinni vasapeningar fyrir fullorðna manneskju, hvað þá að slíkur einstkalingur geti leyft sér nokkurn munað í lífinu. Hann er nánast útskúfaður frá almennri þátttöku í samfélaginu og algjörlega upp á maka sinn eða sambýlismann, karl eða konu, kominn í öllu sínu lífi.

Ég ítreka það að ef ég ætti að forgangsraða í þessu efni þá teldi ég að það ætti að byrja á því að taka öryrkja og gera strax bragarbót og í reynd ættum við að ganga lengra en þessu nemur. Ég þykist vita að flutningsmaður og flutningsmenn eru á sama máli og ég um að öryrkja beri að lágmarki það sem honum er skammtað að hámarki eða 70 þús. kr. á mánuði. Auðvitað á ekki að líta á þetta á annan hátt og lakari en litið er á atvinnuleysisbætur. Einstaklingur sem hefur rétt til atvinnuleysisbóta nýtur þeirra og fær þær hvað sem líður hjúskaparstöðu eða sambúð viðkomandi því honum ber þessi réttur sem einstaklingi. Það er lágmarkskrafa að öryrki búi við sama rétt hvað þetta snertir.

Síðan er ég líka á því máli að bæta þurfi stöðu aldraðra almennt. En ég tek undir það sem oft hefur verið sagt hér í umræðunni, að þar er ekki saman að jafna öllu öldruðu fólki í landinu. Það er alveg rétt. Aldrað fólk býr við mismunandi kjör og að því þarf að sjálfsögðu að hyggja.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal vék að kjaraþróun lífeyrisþega á undangengnum árum. Hann sagði það sem rétt er að verkamannalaun og sérstaklega lægstu laun hefðu hækkað eða verið hækkuð umtalsvert á undangengnum árum og fyrirsjáanleg væri sama þróun, þ.e. að lægstu laun yrðu hækkuð umfram það sem gerðist að meðaltali. Það er líka rétt að kjör lífeyrisþegans hafa ekki þróast að sama skapi. En hann tíndi þá ástæðu til að þar hefðu komið hækkandi lífeyrisgreiðslur á móti, ef ég skildi rétt. Hv. þm. hristir höfuðið. Ég bið forláts ef ég hef misskilið hans málflutning.

En staðreyndin er sú að þessi hefur verið þróunin. Lágmarkslaun hafa hækkað verulega og langt umfram meðaltal. Ef við hefðum búið við sama kerfi og við gerðum fram yfir miðjan tíunda áratuginn hefðu lífeyrisbæturnar hækkað samhliða hinum lægstu launum, lágum verkamannalaunum, vegna þess að viðmiðunin var bundin í þau. Það sem gerist síðan er að skorið er á þessi tengsl. Um tíma er ekki um nein tengsl að ræða. Síðan þegar þau eru sett á að nýju þá er búið til tvíhliða kerfi og þannig hagar til núna að tryggingabæturnar fylgja annaðhvort verðbólgunni, neysluvísitölu, eða meðaltalslaunaþróun, launavísitölu, og skulu þær fylgja þeirri tölunni sem er hærri. Reyndar hef ég sýnt fram á að það hafi ekki einu sinni gerst. Það gerðist ekki einu sinni á árinu 1999 og hef ég sýnt fram á það í málflutningi á Alþingi og í blaðagreinum sem ég hef skrifað um það efni. Ef einhver vefengir það þá óska ég eftir tölulegum útreikningi þar að lútandi því að yfir þá útreikninga hef ég lagst ásamt sérfróðu fólki.

Hins vegar þóttu mér þessar bætur vera framfaraspor. Mér fannst framfaraspor að hverfa frá því fyrirkomulagi að þetta væri komið undir geðþótta þingsins hverju sinni og að búa til alla vega þetta lágmarksnet því að þinginu er síðan í sjálfsvald sett að sjálfsögðu að hækka bæturnar umfram þetta. En þetta fyrirkomulag tryggir að ef kaupmáttarrýrnum verður í landinu, þ.e. ef verðbólgan hækkar meira en nemur hækkun launa þá munu almannatryggingar hækka með vísitölunni þannig að ekki verður kjararýrnun á ferðinni. Þetta var framfaraspor frá því fyrirkomulagi að engin tengsl væru þarna á milli. En að sjálfsögðu hefðu lífeyrisþegar haft bestan hag af því, a.m.k. á liðnum árum og í fyrirsjáanlegri framtíð, að vera tengdir verkamannalaunum eins og þau voru áður. Þá hefðu kjarabæturnar orðið umtalsvert hærri en þær hafa orðið.

Við höfum öll, alþingismenn, sem eigum sæti á Alþingi fengið ítarleg gögn um þessa kjaraþróun á liðnum árum. Við höfum fengið þau frá Öryrkjabandalaginu og frá Landssambandi eldri borgara. Og þar kemur m.a. fram, t.d. í gögnum sem bárust nýlega frá Landssambandi eldri borgara, að grunnlífeyrir og tekjutrygging sem hlutfall af dagvinnulaunum verkamanna á höfuðborgarsvæði hafi farið lækkandi. Árið 1991 voru þetta 51,7%, þetta hlutfall sem grunnlífeyrir og tekjutrygging var af þessum launum, en er komið niður í 43,6% á þessu ári og fyrirsjáanlegt að það verði 42,4% á árinu 2003. Þetta er sem sagt þróunin.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. Margir hv. þm. hafa gert ítarlega grein fyrir frv. Ég kem fyrst og fremst upp til þess að taka heils hugar undir frv. og heiti því að styðja það af fremsta megni þótt ég sé vissulega á því að við þurfum að hyggja að því hvernig við forgangsröðum í þessu kerfi. Þar segi ég það mjög afdráttarlaust að ég tel að við eigum að horfa til öryrkja sérstaklega fyrst og hefði ég viljað ganga lengra en frv. í reynd gerir og þykist ég vita að flutningsmenn kunna að vera mér margir sammála um það og tryggja öryrkjanum að lágmarki það sem honum ber að hámarki, 70 þús. kr. á mánuði og reyndar vildi ég hafa þá upphæð miklu hærri.

En hér er lagt til að stigið verði framfaraspor, að afnumin verði tekjutenging tekjutryggingar lífeyrisþega við tekjur makans.