Atvinnumöguleikar kvenna í fiskvinnslu

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:07:49 (747)

2000-10-18 15:07:49# 126. lþ. 13.7 fundur 64. mál: #A atvinnumöguleikar kvenna í fiskvinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel mig þekkja alveg þokkalega til fiskvinnslunnar og stöðunnar þar. Það mál sem hér um ræðir er afleiðing þróunar sem menn hafa getað séð fyrir og mun halda áfram, þ.e. vél- og tæknivæðing sem byggir á því að menn eru farnir að nota tölvur og aukna sjálfvirkni í sjávarútvegi.

Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé fyrir þá nefnd sem tekur til starfa frá og með deginum í dag að hún skoði í raun og veru fleira en beinlínis störfin á færibandinu, hún skoði hvaða atvinnumöguleikar eru fyrir konur sem missa störf vegna þess að störfin leggjast niður í vinnslunni, hafa gert það og munu gera það um ókomna framtíð.