Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:46:02 (1049)

2000-11-01 13:46:02# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þrátt fyrir orð hæstv. fjmrh. áðan er mergurinn málsins sá að engin alvörutilboð hafa komið frá samninganefnd ríkisins í kjaradeilunni. Það er ekki af því að tíminn hafi ekki verið nægur, herra forseti, því að kennarar hafa haldið sjónarmiðum sínum til streitu frá því í fyrrahaust þegar lá fyrir að forsendur gildandi kjarasamninga væru að bresta vegna launaþróunar annarra háskólamanna. Samninganefnd ríkisins hefur bara ekki notað tímann.

Þess vegna þarf ekki að koma neinum á óvart að málum sé svo komið sem raun ber vitni, starfsemi framhaldsskólanna stöðvast að óbreyttu 7. nóvember nk. vegna þess að skólarnir eru ekki samkeppnisfærir um fólk á vinnumarkaði. Nóg framboð er af störfum fyrir fólk sem hefur bakgrunn framhaldsskólakennara. Hættan er auðvitað sú, ef ekki verður tekið af alvöru á þessu máli núna af ríkisins hálfu, að fólk skili sér ekki aftur inn í skólana. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera komi sú staða upp? Herra forseti. Málið er nákvæmlega svona alvarlegt.

Málshefjandi í umræðunni beinir eðli máls samkvæmt máli sínu til hæstv. fjmrh. öðrum fremur og það er vissulega mikil ábyrgð sem hvílir á herðum hæstv. fjmrh. En þó að hann beri ábyrgðina í samningamálum ríkisins er ábyrgðin líka hæstv. menntmrh. Hvar hefur hann verið í umræðunni í þessum málum hingað til? Er hæstv. menntmrh. í felum? Það hefur heyrst í honum við önnur eins tækifæri. Nú getur hann ekki hlaupist undan ábyrgð á sama hátt og hann hefur gert svo léttilega í málefnum grunnskólanna eftir að málefni þeirra voru flutt undir sveitarfélögin.

Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar allrar og það er holur hljómur í málflutningi ríkisstjórnarinnar þegar hún gortar af aukinni áherslu á menntamálin á síðustu árum. Ríkisstjórnin veit fullvel að við leggjum minna fé til menntamála en önnur OECD-lönd og ríkisstjórnin sýnir í reynd engan vilja til að efla framhaldsnám á Íslandi. Það kemur í ljós þegar fjárlagafrv. fyrir næsta ár er skoðað því að þar eru nýmælin í málefnum framhaldsskólanna fólgin í gæluverkefni hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar. Námsmenn og skólafólk á annað skilið af ríkinu en það að þessi deila verði ekki leyst strax.