Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 15:10:38 (1260)

2000-11-02 15:10:38# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er fjarri öllu lagi halda því fram að kostnaður sem flugfélögunum er ætlað að greiða af flugleiðsögu, sem er vel að merkja 30 millj. en ekki tæpar 50 eins og hv. 1. flm. þessa frv. hefur talað um, hafi leitt til þess að flugfélag hafi hætt starfsemi sinni, af því að það hafi þurft að greiða lítinn hluta af kostnaði við flugleiðsögu. Þar eru allt aðrar ástæður. Breytingarnar í innanlandsfluginu eru m.a. vegna þess að vegasamgöngur hafa lagast og flugfarþegum fækkað á tiltekna staði. Það er partur af þessum vanda. Með því að breyta stefnunni og koma til stuðnings rekstraraðilum á þeim flugleiðum sem verið er að bjóða út þá er meiri von til þess að árangur náist í því að byggja upp flugið.

Það er hins vegar staðreynd að flugfélögin leggja mikla áherslu á að hasla sér völl. Þau gera það svo sannarlega núna með því að bjóða í innanlandsflugleiðir sem við höfum boðist til að styrkja og ekkert bendir til annars en að flugfélögin hugsi sér að styrkja stöðu sína og veita sem besta þjónustu.