Heilsuvernd í framhaldsskólum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 17:24:10 (1289)

2000-11-02 17:24:10# 126. lþ. 19.7 fundur 91. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[17:24]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka 1. flm. tillögunnar, hv. þm. Ástu Möller, fyrir góða yfirferð og kynningu á þáltill. um heilsuvernd í framhaldsskólum. Hún gerði það mjög ítarlega svo að ég mun ekki halda hérna langa ræðu en taka undir það sem hún sagði.

Það er löngu tímabært að huga að aukinni heilsuvernd í framhaldsskólunum því eins og málin standa í dag og hafa gert um nokkurt skeið hefur þessi þáttur heilsuverndar fallið á milli stafs og hurðar ef svo má segja. Ábyrgðin á að vera hjá viðkomandi heilsugæslustöð, eða heilsugæslustöð sem er næst framhaldsskóla, og skólanum en hvorug stofnunin hefur fjármagn eða mannafla til þess að sinna þessari heilsuvernd eins og þyrfti. Og á mjög mörgum stöðum er hún alls ekki til staðar.

Þar sem samkomulag hefur náðst og áhugi er til staðar að koma heilsuvernd inn í framhaldsskólana, þá hefur það sýnt sig að það er mikil þörf og sú heilsuvernd sem staðið hefur til boða, þó ekki hafi verið annað en viðtöl, viðvera, hefur virkilega skilað sér til nemendanna, er vel metin og kemur að góðu gagni. Þetta á við um svo marga þætti því að á unglingsárunum er margt að gerast, mótunarskeiðið er hratt, áhrifin frá félögum og utanaðkomandi og þjóðfélaginu öllu er mikið. Áreitið er því mikið og margir unglingar eiga erfitt með að fóta sig. Margir eru líka fjarri heimilum, í heimavistarskólum eða framhaldsskólum fjarri heimabyggð og án þess að hafa stuðning foreldranna dags daglega og þeir þurfa þar af leiðandi enn þá frekari stuðning í skólunum heldur en ella.

En þetta á ekki bara við þá nemendur sem eru í heimavistarskóla, auðvitað á þetta við alla nemendur því unglingar vita ekki alveg hvert þeir eiga að leita með vandamál sín, vita það jafnvel ekki sjálfir eða átta sig ekki á því að eitthvað sé að sem hægt er að laga eða bæta heilsu þeirra, bæði andlega og líkamlega. Þeir eru jafnvel fullir af minnimáttarkennd, það getur verið geðdeyfð, það getur verið eitthvað sem þeir telja að ekkert sé hægt að gera við eða vita ekki hvert þeir eiga að leita með vandamál sín. Það að geta boðið upp á viðtalstíma, viðveru og geta haft einhvern sem er sérmenntaður til að veita beint ráðgjöf og þjónustu og sem veit hvert á að vísa annað ef vandamálið er þess eðlis, er unglingnum mikill styrkur og það hefur sýnt sig að það er miklu auðveldara fyrir börn og unglinga að leita til sérfræðinga sem eru innan skólans og í því umhverfi sem þeir treysta en aðstoðar á heilbrigðisstofnunum. Aðgengi er sem sé mikilvægt.

Það er svo margt sem hægt er að hjálpa með eins og hér hefur komið fram. Hægt er að leiðbeina t.d. um næringu, bæði hvað varðar ofát og lystarstol og ýmsa kvilla sem koma af rangri næringu og spennu. Og það sem er enn þá mikill styrkur fyrir allar ungar stúlkur er að hafa einhvern nálægan til þess að ráðleggja sér varðandi getnaðarvarnir og eins ef ótímabær þungun hefur átt sér stað, hvað þær geti þá gert. Það er ekki alltaf sem þær treysta sér til að fara strax á heilsugæslustöð eða tala við foreldrana og ef þær vilja láta eyða fóstrinu, hvert þær eigi að snúa sér. En áður en til þungunar kemur er það allra besta að hafa einhvern sem bæði fræðir og kennir innan skólans öllum á framhaldsskólastiginu hispurslaust um notkun getnaðarvarna þannig að til ótímabærrar þungunar komi ekki. Það hefur sýnt sig að fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir er ábótavant í skólakerfinu allt frá grunnskólanum og upp úr. Það er ekki nóg að vita hvernig smokkurinn lítur út eða hvernig á að taka pilluna, heldur þarf að fá betri fræðslu með auknum þroska og hafa síðan einhvern til að ráðfæra sig við þegar kemur að því að þurfa að nota getnaðarvarnir.

[17:30]

Hið sama gildir um neyðargetnaðarvörnina. Hún þarf að vera aðgengileg, ekki bara að hægt sé að fara út í apótek og kaupa hana, heldur þarf fólk að hafa einhvern til að ráðfæra sig við og fá leiðbeiningar um hvort þörf sé á að taka þessa töflu eða ekki.

Hér var búið að nefna slysin, sem eru mjög algeng á þessum aldri, ofbeldi og svo reykingar.

Það þarf stöðugt að fræða um skaðsemi reykinga en þegar komið er upp í framhaldsskólana þarf ekki síður að hafa þar sérmenntað fólk sem getur leiðbeint, bæði með námskeiðum og eins með einstaklingsfræðslu, þeim sem þegar eru byrjaðir að reykja við að hætta að reykja og styðja þá í reykbindindi. Það væri mjög æskilegt ef það væri hægt að koma því inn í framhaldsskólana. Þetta gildir einnig um áfengi og vímuefni.

Geðheilsa unglinga er sveiflukennd. Þeir eru oft þunglyndir og eiga við dulin vandamál að stríða sem mjög mikilvægt er að grípa inn í, vandamál sem þeir sjálfir gera sér ekki grein fyrir.

Ég tek undir með hv. 13. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni, að það væri æskilegt ef hægt væri að yfirfæra þessa tillögu á grunnskólana, þann hluta sem snýr að meiri viðveru, viðtölum og aðgengi að heilbrigðisstarfsmönnum.