Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:22:48 (1413)

2000-11-03 17:22:48# 126. lþ. 20.15 fundur 194. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (GSM-leyfi) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að hjá Póst- og fjarskiptastofnun, sem úthlutar þessum leyfum, liggja þær umsóknir sem kunna væntanlega að hafa borist. Ég get því ekki sagt á þessu stigi hversu margar umsóknir hafa borist en innan tíðar mun það liggja fyrir.

Spurningin var um hvort komi til greina að bjóða þetta þriðja leyfi út. Ég tók þá afstöðu og það liggur fyrir að langeðlilegast væri hvað varðar þetta þriðja leyfi, GSM-900, að því yrði úthlutað með sömu skilyrðum og var gert með hin tvö. Ég taldi ekki eðlilegt að viðhafa aðra aðferð við það vegna þess að með því hefðu verið sköpuð önnur samkeppnisskilyrði á þessum markaði. Ég tel að afar mikilvægt að samkeppni ríki á þessu sviði og þriðja leyfið er þess vegna auglýst og að sjálfsögðu með það í huga að skapa þeim svigrúm sem vilja koma inn á markaðinn og keppa þar.

Á það er hins vegar að líta að íslenski markaðurinn er lítill og það þarf að átta sig á því en það hljóta þeir að gera sem sækjast eftir þessum leyfum.