Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 11:41:33 (1844)

2000-11-16 11:41:33# 126. lþ. 26.3 fundur 117#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1999# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vandi forseta Alþingis er sá að þegar á reynir fellur hann inn í pólitískt hlutverk í stað þess að vera forseti Alþingis og ræða við þingmenn sína sem slíkur, sem forseti allra þingmanna og í skjóli þess kjósum við hæstv. forseta sem sameiginlegan forseta okkar.

Þegar herra Halldór Blöndal kemur í ræðustól til að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar þá er hann ekki að koma sem flokksbróðir Davíðs Oddssonar til verja ríkisstjórn hans. Nei, herra forseti, hann er að koma hér til þess að ræða við okkur hvernig eigi að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það kemur mér kannski ekki á óvart þó það valdi mér vonbrigðum að hæstv. forseti Alþingis heyrði ekkert af því sem ég var að segja nema gagnrýni á húsnæðiskerfið. Ég var nefnilega að tala um að við þyrftum að gera betur og finna leið til að fara faglega með vinnu þessa tækis okkar sem Ríkisendurskoðun er, vinna með skýrslurnar þannig að úttektir skiluðu sér inn í þingið. Hæstv. forseti Alþingis hafði ekkert að segja við mig um það. Þegar ég tala um útúrsnúning er það nákvæmlega þetta að hæstv. forseti kom og sagði: Við erum að ræða skýrslu. Þetta er bara allt í lagi. Það á að skila heildarskýrslu Ríkisendurskoðunar. Hún er hér. Það er verið að ræða hana. Það er útúrsnúningurinn sem ég er að vísa til. Sjálf hafði ég vit á því að segjast ekki ætla að taka til umræðu húsnæðismálin að öðru leyti en að fara yfir naktar niðurstöður Ríkisendurskoðunar á máli sem Samfylkingin óskaði eftir skoðun á.