Skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 14:39:09 (1875)

2000-11-16 14:39:09# 126. lþ. 26.4 fundur 118#B skýrslur umboðsmanns Alþingis 1998 og 1999# (munnl. skýrsla), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð um skýrslu umboðsmanns Alþingis sem hér er til umfjöllunar. Ég vil byrja á því að þakka fyrir skýrslurnar báðar sem eru mjög ítarlegar og fróðlegar og eins starf umboðsmanns Alþingis sem er okkur öllum, bæði í stjórnsýslunni og almenningi, mjög mikilvægt.

Eins og hér hefur komið fram hefur starf umboðsmannsins breyst og það er alveg ljóst að starf hans hefur mjög víðtæk áhrif inn í alla stjórnsýsluna, alla okkar vinnu. Þær ábendingar og leiðréttingar sem umboðsmaðurinn hefur bæði komið með og fengið afgreitt eru okkur öllum umhugsunarefni og eiga að vera okkur sá lærdómur að störf okkar brjóti ekki í bága við lög og reglugerðir.

Í skýrslunni kemur fram að embætti umboðsmanns ætlar enn frekar að auka upplýsingar til almennings og þeirra sem þurfa að fylgjast með málum í stjórnsýslunni með því að koma upp heimasíðu. Þetta er lofsamlegt framtak og vonandi fær heimasíðan góða kynningu þannig að sem flestir noti hana.

Það er mjög mikilvægt að embætti umboðsmannsins sé og verði hlutlaust embætti sem hafi það fjármagn sem til þarf að sinna rannsóknum á þeim verkefnum sem það annaðhvort er beðið um að sinna eða tekur upp að eigin frumkvæði, þ.e. að embættið hafi það fjármagn sem til þarf svo það geti unnið eðlilega.

Hér kemur líka fram að helstu málaflokkarnir eru enn þá almannatryggingar og skattar og gjöld. Þetta eru oft erfið mál, sérstaklega þau mál sem snúa að félagsþjónustu sveitarfélaganna, þ.e. þegar einstaklingar sem eiga í einhverjum bágindum fá ekki nægilegar leiðbeiningar í kerfinu til þess að átta sig á því hvert þeir eigi að snúa sér, þ.e. nærþjónusta er til staðar án þess að vísað sé til annarra og æðri stjórnvalda sem væru þá í flestum tilfellum annað hvort Tryggingastofnun ríkisins eða félmrn. Þess vegna er mjög mikilvægt að upplýsingaþjónusta sveitarfélaga sé góð svo fólk geti leitað réttar síns.

Ég tek undir það að í stjórnsýslunni allri er mikilvægt að efla menntun starfsmanna í stjórnsýslulögum og reglugerðum, og ánægjulegt er að lesa í skýrslunni að umboðsmaður Alþingis hefur haldið fund með ráðuneytisstjórum í Stjórnarráði Íslands þar sem farið hefur verið yfir bæði sameiginleg mál og það sem betur hefði mátt fara. Það væri óskandi að þessi siður yrði tekinn upp þannig að málum fækkaði í hvert skipti sem fundur væri haldinn. Þetta yrði svona hluti af því að skóla stjórnsýsluna til eins og kom fram í máli ágæts þingmanns.

Ég tek undir þær ábendingar sem hér hafa komið fram um að þessari viðamiklu skýrslu svo og öðrum, t.d. frá Ríkisendurskoðun, verði vísað til viðkomandi nefnda þingsins þannig að þær fái þar umfjöllun og skýrari meðferð en nú.