Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:47:44 (1999)

2000-11-21 13:47:44# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er í raun ekkert að tala um markaðshyggju. Ég er að tala um almenna skynsemi. (Gripið fram í: Frjálshyggju.) Þetta er ekki frjálshyggja, þetta er almenn skynsemi. Ef þessi sementsmóttökuhöfn hefði t.d. verið á Austurlandi hefði það engu breytt fyrir afkomu fyrirtækisins en það hefði verið þjóðhagslega mjög óhagkvæmt.

Varðandi jöfnun á húshitun þá leiðir hún til þess að fólk, t.d. á Ísafirði eða Siglufirði, kyndir ekki með öðru en rafmagni. Það væri hugsanlega hagkvæmara á þeim stað að kynda t.d. með rekaviði eða einhverju slíku eða fjarhitun. Það er hins vegar ekki gert vegna þess að til þess að ná í húshitunarstyrkinn þurfa menn að kaupa raforku, annars fá þeir ekki styrkinn. Þannig getur verið miklu skynsamlegra að borga fólki hreinlega beint í vasann og segja því að ef það vilji einangra betur húsin sín eða hita þau einhvern veginn öðruvísi þá geri það svo. En það á ekki að þvinga það til að kaupa rafmagn og fá styrkinn þannig.

Öll slík flutningsjöfnun er óhagkvæm, þjóðhagslega óhagkvæm, nema þegar kemur að námi. Þar tel ég að horfi allt öðruvísi við. Þar er verið að nýta hæfileika einstaklingsins. Með því að veita fólki jafnan aðgang til náms nýtir þjóðfélagið hæfileika hvers einasta manns og það er allt annar handleggur. Það getur verið miklu skynsamlegra, herra forseti, að veita styrki, ef menn ætla að jafna byggð í landinu, með því að borga fólki hreinlega beint í vasann og leyfa því síðan sjálfu að ráða hvort það vill hita húsin sín með dýru rafmagni, byggja húsin úr ofsalegu dýru sementi eða byggja timburhús og hita þau með öðrum hætti.