Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 19:13:59 (2049)

2000-11-21 19:13:59# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir stórhækkuð laun og minnkandi atvinnuleysi sem er nánast ekkert og marga virkilega góða hluti sem eru afleiðingar af starfi ríkisstjórnarinnar í því að bæta umhverfi atvinnulífsins, þá eru vissulega gallar. Og það sem maður horfir kannski mest á er verulega mikill halli á viðskiptum við útlönd, hættulega mikill halli að mínu mati sem þarf að taka á. Það er vandi sem þarf að taka á. Einn þáttur í því er að auka sparnað, auka innlendan sparnað og til þess þarf að búa til umhverfi, lækka eignarskatta t.d. og hætta að refsa fólki fyrir að spara. En það þarf að gera meira. Það þarf að hætta að verðlauna menn fyrir að skulda og ég er búinn að benda á það aftur og aftur að vaxtabæturnar hvetja ungt fólk til þess að skulda og ég skora á hv. þm. að taka á því máli og hætta að verðlauna menn og hvetja þá til að skulda.

Varðandi samþjöppun á matvörumarkaðnum, þá er það náttúrlega allt annað mál og heyrir undir samkeppnislög og annað slíkt. Ég var ekkert voðalega ánægður með niðurstöðuna í því máli á sínum tíma en auðvitað hljóta stofnanir ríkisins að ákveða um það hvað ógnar samkeppni og hvað ekki. En það er allt annað mál en það sem við ræðum hér sem eru fjármagnstekjur og að hætta að leyfa fólki að fresta söluhagnaði af hlutabréfum.