Endurbygging og varðveisla gamalla húsa

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:54:13 (2160)

2000-11-22 14:54:13# 126. lþ. 30.6 fundur 248. mál: #A endurbygging og varðveisla gamalla húsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er:

,,Hefur verið gert sérstakt átak til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni, sbr. 10. tölul. í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999?``

Einnig er spurt:

,,Hversu miklu fé hefur verið varið til þessa málaflokks úr ríkissjóði sl. fimm ár?``

Og loks:

,,Telur ráðherra hugsanlegt að veita hærri styrki til uppbyggingar gamalla húsa á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu?``

Framlög til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni hafa verið aukin verulega á undanförnum árum. Framlög og styrkir til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa eru einkum með þrennum hætti þegar frá eru taldar framkvæmdir á vegum ríkisins við endurbætur á eldri húsum í eigu þess.

Í fyrsta lagi framlög til verndunar gamalla húsa í vörslu Þjóðminjasafns.

Í öðru lagi styrkir sem veittir eru í sérstök verkefni, þ.e. endurbyggingu húsa sem í flestum tilfellum eru í eigu eða á vegum sveitarfélaga og samtaka.

Í þriðja lagi framlög til húsafriðunarsjóðs sem styrkir viðhald og endurbætur á friðuðum húsum og mannvirkjum.

Framlög ríkisins til þessara verkefna samanlagt hafa undanfarin ár verið sem hér segir: 1996, 52 millj. kr.; 1997, 64 millj. kr.; 1998, 79 millj. kr.; 1999, 103,5 millj. kr.; árið 2000, 138,5 millj. kr. Til viðbótar framlagi ríkisins í húsafriðunarsjóð leggur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga árlega fé í sjóðinn. Á árinu 1996 var það framlag 40,2 millj. kr. en hefur síðan hækkað árlega um 400--500 þús. og er nú, árið 2000, 41,8 millj. kr.

Framlag til verndunar gamalla húsa í vörslu Þjóðminjasafns, svo og sérstakar styrkveitingar vegna endurbóta, renna nær eingöngu til framkvæmda utan höfuðborgarsvæðisins. Styrkgreiðslur húsafriðunarsjóðs árið 1999 námu um 59 millj. kr. Þar af voru veittir styrkir á höfuðborgarsvæðinu upp á alls 12 millj. kr. en 47 millj. kr. utan höfuðborgarsvæðisins. Meginhluti styrkja ríkisins til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa rennur því til framkvæmda á landsbyggðinni.