Endurskoðun laga um leigubifreiðar

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:20:55 (2391)

2000-11-29 14:20:55# 126. lþ. 34.4 fundur 234. mál: #A endurskoðun laga um leigubifreiðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. og vissulega rétt að þeim sem reka leigubíla er mjög þröngur stakkur skorinn. Það er alveg ljóst. Ég tel að það væri af hinu góða að auðvelda þeim þessa starfsemi og þennan rekstur. Leigubílar eru eins og hver önnur atvinnutæki sem mikil fjárfesting liggur í. Eigendur þeirra þurfa að nýta þá fjárfestingu sem allra best og tryggja að bílarnir séu sem lengst í notkun þannig að fjárfestingin beri sem mestan arð. Það gerist hins vegar ekki ef einungis einn aðili getur unnið á hverjum bíl. En þetta eru allt atriði sem þarf að skoða ásamt með því hvort gera eigi breytingar á svæðisskiptingu o.fl. Að þessu er unnið í ráðuneytinu eins og kom fram hjá mér. Ég er sannfærður um að við náum niðurstöðu áður en langt um líður en þetta er mjög viðkvæmt og vandasamt verkefni. Það skiptir mjög miklu máli að þessi atvinnugrein búi við sem mest öryggi og á sama hátt búi notendur þessarar þjónustu við öryggi og kostnaður fari ekki úr hófi.