Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:24:18 (2729)

2000-12-05 18:24:18# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir hans innlegg í þetta mál. Hann fjallaði um málið með því að koma með ýmsar tölur um skattgreiðslur í sveitarfélögum, fyrst og fremst í Norðurlandskjördæmi vestra. Ég verð að segja að mér þótti ágætt að heyra að hv. þm. hafði töluverðan skilning á skattlagningu á atvinnurekstur og ég vona að hann láti þessa rödd heyrast hátt og snjallt í þingflokki Samfylkingarinnar þegar rætt er um skattamál atvinnulífsins því að ekki veitir af að sú rödd heyrist hátt og snjallt þegar þau mál eru til umfjöllunar þar.

Varðandi þær tölur sem hann nefndi þá fannst mér eins og hv. þm. gleymdi að ræða um hve mörg börn væru á Siglufirði, í Skagafirði, á Blönduósi og á Skagaströnd eða í Vestur-Húnaþingi til þess að við gætum metið það líka sem íbúar á þessum svæðum njóta í hækkun barnabóta þegar það er allt saman komið fram. Mig minnir að það sé dágóður slatti af börnum á Siglufirði, ætli það séu ekki tvær bekkjardeildir í árgangi og a.m.k. nóg til þess að fá í góð fótboltalið, bæði í strákaflokki og stelpnaflokki, í öllum flokkum. Þetta á líka við um Skagafjörð og Skagaströnd. Þar er óvenjumikið af börnum og ég hygg að á móti þeim útsvarshækkunum sem hinir tekjuháu Skagstrendingar þurfa að greiða þá fái þeir slatta í barnabætur á móti og ég held að þeir verði vel settir.

En það sem mér finnst standa upp úr í þessu er að sveitarfélögin úti um land voru býsna ánægð með þessar breytingar allar.