2000-12-06 00:59:37# 126. lþ. 40.16 fundur 314. mál: #A barnalög# (ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[24:59]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessar umræður og þær athugasemdir sem komið hafa fram. Ég mun leitast við að svara spurningum þeirra.

Ef litið er á fskj. II með frv., umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., þá er þar tekið skýrt fram í upphafi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Frv. þetta felur í sér að sýslumönnum verði heimilað að bjóða sérfræðiráðgjöf til handa aðilum sem eiga í ágreiningi um umgengni og forsjá barna.``

Á eftir næstu greinaskilum segir síðan:

,,Samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir að deiluaðilar í ágreiningsmálum af þessum toga greiði sjálfir fyrir sérfræðiráðgjöfina heldur beri ríkissjóður þann kostnað.``

[25:00]

Hins vegar tel ég að það sé rétt athugasemd hjá hv. þm. að þetta sé nokkuð varlega áætlað í umsögninni. Þetta gæti orðið meiri kostnaður því auðvitað standa vonir til þess að sem flestir foreldrar muni nýta sér þessa þjónustu og það tel ég ákaflega mikilvægt. Raunin varð sú að þegar þetta tilraunaverkefni var gert hjá sýslumanninum í Reykjavík, eins og ég skýrði frá í framsögu með frv., gaf það ákaflega góða raun, í raun og veru miklu betri niðurstöðu en menn höfðu þorað að vona þar sem 80% samninga gengu ágætlega í framkvæmd. Ég held því að rétt sé að við skoðum þennan þátt betur þegar fer að reyna meira á málið. Auðvitað á eftir að útfæra hugmyndina betur en það verða sýslumannsembættin um allt land sem munu bjóða þessa þjónustu og ég undirstrika að það er val en ekki skylda fyrir foreldra að leita eftir þessari ráðgjöf.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir minntist á tillögu sína um talsmanna barna. Ég held að það væri rétt að sifjalaganefnd fengi þá slíka tillögu til skoðunar því sifjalaganefnd er, eins og hún benti réttilega á, að endurskoða barnalögin í heild sinni. Það tekur allnokkurn tíma, ég vonast til að þeirri endurskoðun verði lokið næsta haust, en það er einmitt ástæðan fyrir því að þessari 2. gr. er skotið hér með að þeirri heildarendurskoðun er ekki lokið. Í haust féll dómur í Hæstarétti þar sem fjárnámi sýslumannsins í Reykjavík var hafnað einmitt vegna þess að ekki var talin vera lagaheimild fyrir hendi varðandi dagsektir fyrir aðra en foreldra. Þess vegna tel ég réttlætismál að taka sérstaklega á þessu atriði.

Hins vegar er alveg rétt að hafa í huga að það er afskaplega vandmeðfarið hvernig þessu úrræði er beitt en auðvitað á meginreglan að vera sú að fólk virði úrskurði um umgengni vegna þess að það er réttur barnsins.

Ég held að ég hafi svarað spurningum hv. þm. Ég vonast til að þetta mál fái góðar viðtökur á hinu háa Alþingi. Mér heyrist það raunar af viðtökum og vona að efni þess muni hafa góð áhrif og bæta enn frekar stöðu barna í þjóðfélagi okkar.