Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:10:33 (2818)

2000-12-06 14:10:33# 126. lþ. 41.1 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem við hér ræðum er hluti af samkomulagi sem gert var milli sveitarfélaganna og ríkissjóðs um að taka á fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Það var tekin ákvörðun um að ríkissjóður bætti sveitarfélögunum upp lækkun á fasteignamati úti á landi. Það var enn fremur tekin ákvörðun um að ríkissjóður bætti upp Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um 700 millj. og þannig er komið til móts við vandamál sveitarfélaganna.

Enn fremur var ákveðið að auka sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna með því hækka hámarkið sem þau geta farið í útsvari. Það var ekki gert ráð fyrir því að þetta samkomulag ylli almennri skattahækkun, enda ekki gert ráð fyrir því að sveitarfélögin þyrftu til viðbótar við þá miklu hækkun á fasteignaverði sem hefur verið undanfarið að hækka útsvarið eins og menn hafa gefið í skyn. Það á að vera nóg fyrir sveitarfélögin að fara 0,33% að meðaltali upp í útsvari eins og gert er ráð fyrir að tekjuskatturinn lækki. Ég segi nei.